Einingarkostnaður orkuvinnslu er um þriðjungi hærri í Hvammsvirkjun heldur en í Þeistareykjavirkjun. Þetta má lesa úr tölum sem birtar eru í nýrri skýrslu Samorku.

Þeistareykjavirkjun er nú í byggingu en Landsvirkjun hefur horft til Hvammsvirkjunar sem einnar af þeim virkjunum sem ráðast má í. Til að Þeistareykir borgi sig þarf að selja hverja megavattstund orku á að minnsta kosti 28,9 dollara, en sama tala fyrir Hvammsvirkjun er 38,8 dollarar.

Meðaltal einingarkostnaðar orku frá þeim virkjunarkostum sem nú eru í nýtingarflokki er 38 dollarar á megavattstund. Kostnaður hjá kostum í verndarflokki er 40,4 dollarar. Meðalverð raforku til stóriðju hjá Landsvirkjun var 24,5 dollarar í fyrra.