Ríkið þarf að leggja 4,5 milljarða króna á ári til Íbúðalánasjóðs árlega á næstu árum til að mæta erfiðri fjárhagsstöðu sjóðsins. Þetta er mat alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody's.

Greint var frá málinu í hádegisfréttum RÚV.

Frá árinu 2009 hefur ríkissjóður lagt Íbúðalánasjóði til 46 milljarða króna. VB.is greindi frá því í síðustu viku þegar nýtt fjárlagafrumvarp var kynnt að áætlað framlag til rekstrar Íbúðalánasjóðs nemi 4,9 milljörðum króna á næsta ári. Þar af eru 4,5 milljarðar króna vegna stöðu sjóðsins og 441 milljón króna vegna neikvæðs vaxtamunar á lánum til leiguíbúða.