*

miðvikudagur, 11. desember 2019
Innlent 11. maí 2019 15:04

Þurfa að stækka til að lifa af

Mikilvægi stærðarhagkvæmni í greiðslumiðlun fer vaxandi segir forstjóri Valitor, sem horfir til landvinninga í Evrópu.

Júlíus Þór Halldórsson
Umsvif Valitor hafa aukist gríðarlega síðan Viðar tók við starfi forstjóra fyrir tæpum áratug.
Haraldur Guðjónsson

Viðar Þorkelsson tók við sem forstjóri Valitor árið 2010. Þegar hann tók við var starfsemi fyrirtækisins fyrst og fremst innlend, og þar störfuðu um 150 manns. Í dag er félagið með starfsstöðvar í þremur löndum, yfir 400 starfsmenn og yfir 70% viðskipta þess eru erlendis.

Fyrirtækið er með um 40 þúsund viðskiptavini, annars vegar lítil og meðalstór fyrirtæki, mestmegnis á Bretlandseyjum, og hins vegar verslanakeðjur í Evrópu.

Viðar segir viðbúið að þessi þróun haldi áfram á næstunni, enda takmarkað rými til stækkunar hér á landi. Hann segir Ísland enn mjög mikilvægt, enda heimamarkaður fyrirtækisins, en eins og þróunin sé í dag þurfi fyrirtæki á þessu sviði að vaxa, og tækifærin til þess séu í Evrópu.

Stærðin skiptir máli
Stærðarhagkvæmni skiptir sífellt meira máli í greiðslumiðlun að sögn Viðars. „Það er að verða samþjöppun. Þú þarft að vera með ákveðna stærð til að vera hagkvæmur, til að hreinlega lifa af. Þetta er mikill fjöldi færslna sem er að rúlla, og álagningin er örlítil, svo þú þarft alltaf meira og meira magn til að geta stundað þessi viðskipti og haft afkomu af þeim. Þetta snýst allt um að ná einingakostnaðinum niður til að geta verið samkeppnishæfur í að bjóða þessa vöru og þjónustu.

Eitt af okkar stóru sóknartækifærum er að höfða til stórra og meðalstórra kaupmanna í Evrópu, sem eru með verslanir í mörgum löndum.“ Segir Viðar, en svokölluð alrásaþjónusta (omni-channel) höfði sérstaklega til þeirra. „Við erum að bjóða þeim að þjónusta þá bæði á netinu og í verslunum, og bjóða þessa samtengingu. Þetta er tækni sem er sífellt að ryðja sér til rúms, og við stöndum mjög framarlega á þessu sviði, sem gefur okkur ákveðið samkeppnisforskot.“

Nánar er rætt við Viðar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.