Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins segir áframhaldandi velgengni Íslendinga hvíla á að vöxtur útflutningsgreinanna sé áfram tryggður. Til að hagkerfið geti vaxið áfram á sama hraða þá þurfi útflutningsverðmæti Íslands að vaxa um þúsund milljarða á næstu tveim áratugum, eða sem nemur um 50 milljörðum á ári, það er einum milljarði á viku.

Þetta kemur fram í pistli í Viðskiptablaðinu undir yfirskriftinni 1.000 milljarða áskorun, þar sem hún segir það ólíkt með Íslandi og hinum Norðurlöndunum að þar sé þetta samband þekkt og óumdeilt, en hér sé samkeppnisstaða útflutningsgreina fjarlægt áhyggjuefni.

„Þar er það staða útflutningsgreina sem ákvarðar svigrúm til launahækkana. Á Íslandi er það hið opinbera,“ segir Ásdís sem bendir á að um það sé deilt hvort 2% launahækkun ógni samkeppnisstöðunni á hinum Norðurlöndunum.

„Hér eru lagðar fram kröfur um þrefalt meiri launahækkanir án þess að slíkar kröfur séu mátaðar við samkeppnishæfnina. Á Íslandi er skattheimta á fyrirtæki einnig sú hæsta meðal Norðurlandanna. Í kjölfar efnahagsþrenginganna 2008 lögðu flest ríki áherslu á að minnka skattheimtu en við fórum aðra leið og jukum hana mikið.“

Í pistlinum bendir hún á að Íslendingar þekkja það vel að þó staðan sé nú góð þá fari hagsveiflan bæði upp og niður og því þurfi skilyrði hér að vera samkeppnishæf. „Hóflegar launahækkanir og hófleg skattbyrði skipta þar miklu. Að öðrum kosti vitum við hvernig fer.“