Stjórnendur sem þekkja starfsfólk sitt og styrkleika þess, setja fram skýrar væntingar, eru í tíðum samskiptum við sitt teymi og vinna að markmiðasetningu með starfsfólki eru líklegastir til að ýta undir staðfestu og hollustu starfsfólks, sagði Chloe Strauss, stjórnunarráðgjafi hjá Gallup í London, á ráðstefnu Gallup sem haldin var á dögunum á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni, „Árangur er engin tilviljun“.

Chloe sagði jafnframt í erindi sínu að rannsókn Gallup á hollustu starfsfólks í 140 löndum sýni að að meðaltali séu aðeins 13% starfsmanna helgaðir starfi sínu, á Íslandi sé hlutfallið 12%. Fyrir utan forystu stjórnenda skipti einnig máli að þekkja starfsfólkið sitt vel.

Chloe kom einnig inn á gagnsemi frammistöðuviðtala í erindi sínu en samkvæmt rannsóknum Gallup telja um 50% starfsmanna að viðtölin virki ekki sem skyldi. „Það fer eftir hæfileikum stjórnandans hvort frammistöðuviðtöl stuðli að aukinni hollustu starfsfólks. Samtalið þarf að vera tvíhliða samtal og nálgunin þarf að vera einstaklingsmiðuð til að samtalið virki,“ sagði Chloe.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .