Hæstiréttur sneri í dag við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að Sérstakur saksóknari, Ólafur Þór Hauksson, og fimm aðrir starfsmenn embættisins ættu að bera vitni um símhleranir í tengslum við rannsókn á Al-Thani málinu svokallaða.

Lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar hafði gert kröfu um þessar vitnaleyðslur vegna þess að fram hefðu komið nýjar upplýsingar um framkvæmdina en fyrir lá að tekin höfðu verið upp símtöl Hreiðars við verjanda sinn.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að upptökurnar af símtölum Hreiðars við verjanda sinn myndu ekki koma á neinn hátt til álita þegar leyst yrði úr sakamálinu á hendur honum sem til meðferðar væri fyrir Hæstarétti. Af þeim sökum hefði það enga þýðingu að upplýst yrði frekar um framkvæmd upptakanna og var því sá hluti hins kærða úrskurðar felldur úr gildi.