Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Frjálsa fjölmiðlun ehf. af því að greiða Fjárfestingarfélaginu Dalurinn ehf., 15 milljóna króna greiðslu ásamt dráttarvöxtum.

Krafan um greiðsluna var byggð á samningi frá septembermánuði árið 2017, þar sem Dalurinn kaupir 45 milljóna króna kröfu Frjálsrar fjölmiðlunar gegn Pressunni ehf., en deilt var um hvort Pressan hafi staðið í skuld við Frjálsa fjölmiðlun við undirritun samningsins.

Björn Ingi Hrafnsson fyrrverandi stjórnarformaður Pressunar ehf., og einn eigendanna, gaf skýrslu fyrir dómnum sem vitni, en Árni Harðarson stjórnarmaður Dalsins gaf aðilaskýrslu.

Auk Árna áttu Halldór Kristmannsson, Hilmar Þór Kristinnson, Jóhann G. Jóhannsson og Róbert Wessmann félagið í sameiningu en í dag er Dalurinn einungis í eigu Halldórs Kristmannssonar . Dalurinn er eigandi Birtíngs útgáfufélags sem gefur út Mannlíf, Gestgjafann, Vikuna og Hús og híbýli. Lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson er eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar, sem nú gefa út miðla Pressunnar.

Samið um kröfu samhliða kaupum á fjölmiðlum

Samningurinn var gerður samhliða kaupum fjárfestingarfélagsins Dalsins á útgáfuréttindum Pressunar ehf., en greiða átti kröfuna með 30 milljóna króna peningagreiðslu í tveimur greiðslum og 15 milljóna króna auglýsingainneign hjá miðlun Pressunar ehf., og DV.

Greiðslurnar áttu að fara fram annars vegar 1. september 2018 og hins vegar 1. september 2019, en fyrri greiðslan barst aldrei, og byggðist krafa Dalsins á því.

Frjáls fjölmiðlun krafðist sýknu því félagið hafi aldrei átt kröfu að fjárhæð 45 milljóna króna á hendur Pressunni ehf., sem átti að hafa verið tryggð í eignum Pressunar ehf. og DV ehf., líkt og haldið var fram í samningnum frá því í september.

Segist félagið því vera óbundið af kröfunni, því krafan hafi verið tilkomin vegna svika, og það væri ósanngjarnt og andstætt góðum viðskiptaháttum af hálfu Dalsins að bera hann fyrir sig.

Greiddu milljónatugi fyrir Pressuna

Dalurinn hefur á móti borið fyrir sig kvittanir á greiðslum til félags sem sagt er tengt Frjálsri fjölmiðlun upp á 255,5 milljónir króna, en einnig greiðslur á skuldum til skatta- og tollyfirvalda að fjárhæð 39,4 milljóna króna.

Þrátt fyrir þessar greiðslur þykir dómara ekki sannað að 45 milljóna greiðslan, sem samið var um degi eftir að Dalurinn greiddi áðurnefnda tæplega 40 milljóna króna greiðslu til yfirvalda, byggði á skuld Pressunnar við Dalinn.

Segir í dómsorðinu að engin skrifleg gögn liggi fyrir sem styðji fullyrðingu um skuld Pressunar hef. við Dalinn á þessum tímapunkti, það er 6. september 2017.

Tveimur mánuðum síðar, eða í desember 2017 var Pressan ehf. tekin til gjaldþrotaskipta, og því hafi sú krafa Dalsins, að félagið væri eigandi kröfu á hendur Pressunni að fjárhæð 45 milljóna króna, brostið.

Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn , en vegna atvika málsins og vafaatriða þykir honum rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu, en málskostnaður þess var jafnframt felldur niður.