Bresk stjórnvöld þurfa ekki að birta upplýsingar um hvernig þau ákveða hvaða lönd fara á grænan, gulan og rauðan lista í svokölluðu umferðarljósakerfi í kjölfar niðurstöðu hætsaréttar þar í landi. Flugfélög þar í landi segja ákvörðunina setja óþarfa pressu á ferðamenn og flugfélög. BBC greinir frá.

Flugfélögin easyJet Ryanair, IAG, Tui og Virgin Atlantic, auk Manchester-flugvallar, höfðu öll kallað eftir meira gagnsæi í ákvörðunartöku breskra stjórnvalda um hvernig ákveðið væri í hvaða flokk lönd féllu. Þá höfðu þau krafist þess fyrir dómstólum að fá að vita hvernig ferlinu væri háttað og töldu ekki byggt á gögnum.

Hæstiréttur í Bretlandi komst því að stjórnvöld hefðu ekki brotið gegn lögum og þurfa þau því ekki að birta upplýsingar um hvernig ákvarðanir eru teknar um í hvaða flokk lönd falla. Þá bætti hæstiréttur landsins við að það myndi skapa óþarfa byrði á stjórnvöld sem myndi leiða til hægari ákvörðunartöku um í hvaða flokk lönd féllu.

Félögin sex brugðust ókvæða við niðurstöðu réttarins og sögðu óboðlegt að fullbólusettir ferðamenn yrðu að fara í sóttkví eftir dvöl í Frakklandi. Þá vilja þau að Bandaríkin og Evrópusambandslöndin verði sett á grænan lista og telja kerfið sporna við efnahagslegri viðspyrnu ferðaþjónustunnar þar í landi.

Ísland hefur verið á grænum lista stjórnvalda frá upphafi umferðarljósakerfisins og er ekki í hættu á að detta út af honum, samkvæmt heimasíðu breskra stjórnvalda.