Íslandspóstur ohf. (ÍSP) mun ekki bæði fá lán frá ríkinu sem og framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu. Þetta segir Birgir Jónsson forstjóri Póstsins við Viðskiptablaðið.

Fjallað var um aðdraganda neyðarlánveitingar ríkisins, eiganda ÍSP, til fyrirtækisins í fyrra í Viðskiptablaðinu í liðinni viku. Var þess þar getið að til lánsins hefði komið eftir að Landsbankinn lokaði á frekari lánalínur en ÍSP hafði viljað fá tæplega þriggja milljarða lánsheimild hjá bankanum. Fyrirtækið fékk 500 milljónir króna frá ríkinu í fyrra og annað eins á árinu. Því láni var síðar breytt í hlutafé.

Sjá einnig: Vildu þrjá milljarða frá Landsbankanum

Á árinu tók PFS ákvörðun um að ÍSP ætti inni tæplega 1,5 milljarðs framlag, afturvirkt til fjögurra ára, úr svokölluðum jöfnunarsjóði alþjónustu. Óljóst hefur verið hvernig ætti að greiða upphæðina út, ef til þess hefði komið, enda núll krónur til í sjóðnum. Ekki mun hins vegar koma til þess að Pósturinn fari fram á að fá upphæðina greidda að sögn Birgis og fyrirtækið því ekki að fá 3 milljarða króna frá eiganda sínum.

Í fréttinni var einnig rætt um fyrirkomulag sendingargjalda sem ÍSP hefur lagt á erlendar sendingar, samkvæmt sérstakri lagaheimild þess efnis, og skoðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á því. ESA hefur einnig haft neyðarlánið til skoðunar og hvort það feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð.

Fortíðarvandinn ekki bara vegna erlendra sendinga

„Sendingargjaldið er sett á til að mæta tapi í framtíðinni, það er að niðurgreiðslu sendinga verði hætt sem hlýtur að teljast sanngjarnt í ljósi þess að vörur í verslunum eru ekki niðurgreiddar af Póstinum eða ríkinu. Það hafa verið boðaðar breytingar á þessu verðmódeli í alþjóðsamningum og það er eðlilegt að sendingargjaldið sé endurskoðað í samhengi við þær breytingar þegar þær fara að skila sér,“ segir Birgir.

Ekki sé gert ráð fyrir neinu framlagi frá ríkinu til ÍSP í framtíðinni til að styrkja eða auka rekstrarfé enda sýni áætlanir að reksturinn sé að rétta úr kútnum. Birgir segir mikilvægt að hafa í huga að tekjur ÍSP séu ekki að aukast á milli ára og því sé viðsnúningurinn ekki að koma frá sendingargjaldinu, þótt það hjálpi vissulega til við að stoppa í tapið af þeim vöruflokkum.

„Það er alveg grípandi hugmynd og flott fyrirsögn að slá fram að sendingargjaldið sé sett á til að leysa fortíðarvanda og meint bruðl en það er ekki ástæðan fyrir gjaldinu. Fortíðarvandinn er ekki bara vegna erlendra sendinga, Pósturinn fjárfesti of mikið í hlutum og verkefnum sem skiluðu ekki aukinni framlegð eða getu til að greiða af lánum og því er félagið með of mikinn skuldabagga. Ég hef ekki forsendur til að dæma hvort það hafi verið réttar eða rangar ákvarðanir nema það að staðan er sú að félagið á nú í erfiðleikum með að borga af lánum,“ segir Birgir.

Sagt hefur verið frá því í ár að hagrætt hafi verið í rekstri Póstsins fyrir minn hálfan milljarð á ársgrundvelli. Birgir segir að þegar allt sé talið til nemi hagræðið um 750 til 800 milljónum á ársgrundvelli. EBIDTA þessa árs verði um 500 milljónir á þessu ári og stefnt á tæpar 600 milljónir á því næsta. Þá opnist ýmsar lausnir til að endurskipuleggja efnahagsreikning félagsins. „Ég held því að Pósturinn sé að ná að standa á fætur eftir að hafa hrasað nokkuð illilega,“ segir Birgir.

Ólöglegt að undirbjóða alþjónustu

Þá var sagt frá því fyrir helgi að Pósturinn fengi í upphafi næsta árs 250 milljónir króna frá ríkinu fyrir að sinna alþjónustu á landinu eftir að einkaréttur ríkisins á dreifingu bréfa fellur niður. Í ákvörðun PFS um efnið kom fram að stofnunin teldi hefðbundna alþjónustubyrði ekki lengur til staðar en eftir stæði að meta hve mikið „eitt land, eitt verð“ mun kosta fyrirtækið. Pósturinn hafði farið fram á að fá 490 milljónir króna. Um bráðabirgðaákvörðun er að ræða sem verður tekin til endurskoðunar á næsta ári.

Sjá einnig: Fær 250 milljónir frá ríkinu

„Í sambandi við samningaviðræður okkar við ríkið, varðandi þjónustusamning, þá er alls ekki rétt að þær hafi siglt í strand,“ segir Birgir. Tími til verksins hafi einfaldlega runnið út. Félagið hafi lagt í mikla vinnu við að kostnaðargreina nýju póstlögin og niðurstaðan sé sú að þær feli í sér 490 milljóna kostnað vegna „eitt land, eitt verð“.

„Það skiptir Póstinn litlu máli hvaða þjónustustig hið opinbera vill veita á landsbyggðinni, minni þjónusta kallar á minni kostnað og myndi gefa færi á aukinni hagræðingu í dreifikerfinu ef ríkið myndi minnka þjónustustigið. En það er ekki vilji hins opinbera í þessu máli. Okkar hlutver er því bara að reikna út kostnaðinn við þjónustustigið og leggja svo útreikninginn fram til skoðunar til þeirra aðila sem fara með málin,“ segir Birgir.

„Það væri mjög óeðlilega, og í raun ólöglegt, ef Pósturinn myndi semja um upphæð sem væri undir kostnaði bara til þess að ná samningum. Hvernig ættu þá einkarekin fyrirtæki að bjóða í verkefnið í framtíðinni þegar þessi þjónusta verður boðin út?“ segir Birgir og bætir við: „Eina leiðin er að semja og byggja á vel rökstuddum útreikningum sem standast alla skoðun og það er okkar nálgun í þessu verki.“