Magnús Garðarsson, stærsti eigandi United Silicon hf., segist hafa litlar áhyggjur af minnisblaði, sem lagt var fram í bæjarráði Reykjanesbæjar þann 13. ágúst, þar sem umsókn um alls 2,3 milljarða króna ríkisstyrk vegna hafnarframkvæmda í Helguvík er rakin. Þetta kemur fram í DV .

Í minnisblaðinu er beiðnin um ríkisstyrkinn rökstudd með því að Reykjaneshöfn, sem skuldar 4,3 milljarða króna og getur ekki fjármagnað framkvæmdirnar, þurfi að hefjast handa á þessu ári svo það geti uppfyllt skuldbindingar vegna kísilvers United Silicon.

„Höfnin er fín og það kom hérna í vikunni 150 metra langt flutningaskip með 800 tonn af stálgrindum frá Rússlandi. Við ætlum síðan að taka á móti enn stærra skipi í lok ágúst sem kemur frá Ítalíu með um níu þúsund tonn af útbúnaði handa okkur,“ segir Magnús jafnframt.

Fyrst um sinn mun United Silicon starfrækja einn bræðsluofn í verksmiðjunni, en áform eru um að ofn númer tvö verði tekinn í notkun árið 2019. Fyrirtækið hefur starfsleyfi fyrir fjóra ofna í heildina.

„Hins vegar er alveg rétt að þegar við stækkum verksmiðjuna og fáum ofn númer tvö þá höfum við samið um að hafnarkanturinn verði lengdur til vesturs en eins og ég segi þá liggur svo sem ekkert á því fyrir okkur. Áform okkar hljóða upp á fjóra ofna, eins og starfsleyfi fyrirtækisins heimilar, og þá verð­ um við orðin stærsta kísilverksmiðja í heimi,“ segir Magnús í samtali við DV.