Evrópski seðlabankinn segir að grískir bankar þurfi meira en fjórtán milljarða evra til að halda áfram starfsemi. Þetta kemur fram í nýrri úttekt seðlabankans á heilbrigði grísks bankakerfis. Í henni segir að fjórar stærstu lánastofnanir Grikklands þurfi 14,4 milljarða evra til að standa af sér aðra niðursveiflu í grísku efnahagslífi. Að öllu öðru óbreyttu þurfa bankarnir að bæta við sig samtals 4,4 milljarða evra í eigið fé til að halda velli.

Þá þarf Piraeus Bank 4,9 milljarða evra til viðbótar í eigið fé, Gríski landsbankinn 4,6 milljarða, Alpha Bank 2,7 milljarða og Eurobank 2,1 milljarð. Bankarnir þurfa að skila af sér áætlun fyrir 6. nóvember næstkomandi til að afla sér aukins eigin fjár.

Aðspurður um úttekt seðlabankans segist Evklíð Tsakalotos, fjármálaráðherra Grikklands, ánægður með hana. „Ég er mun bjartsýnni í dag en ég var fyrir mánuði síðan,” er haft eftir honum.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times .