*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 6. september 2019 15:45

Wow þarf leyfi fyrir íslenskar áhafnir

Wow air mun ekki geta notað íslenskar áhafnir á bandarísku flugrekstrarleyfi nema þær hafi atvinnuleyfi í Bandaríkjunum.

Ástgeir Ólafsson
Michele Ballarin sagði að stefnt væri að því að áhafnir yrðu bæði með bandarískum og íslenskum starfsmönnum.
vb.is

Eins og greint var frá í dag hefur USAeospece Assiociates LLC fest kaup á vörumerkinu WOW og mun hefja flugrekstur undir því nafni í október. Verður félagið fyrst um sinn rekið á bandarísku flugrekstarleyfi en fram kom á blaðamannafundi í dag að gert sé ráð fyrir að flugáhafnir verði blandaðar af Íslendingum og Bandaríkjamönnum. 

Ljóst er að það mun reynast nýju félagi þrautin þyngri að finna íslenskt flugfólk í áhafnir sínar þar sem bandarískt flugrekstrarleyfi gerir kröfur um að áhafnarmeðlimir séu bandarískir ríkisborgarar eða séu með græna kortið. 

Þetta þýðir því að á meðan félagið er ekki með íslenskt flugrekstarleyfi mun endurreist WOW air einungis notast við bandaríska áhafnarmeðlimi ekki nema að félagið finni íslenska flugliða eða flugmenn sem fæddust í Bandaríkjunum og ættu þar af leiðandi að vera með græna kortið eða Íslendinga með gildandi atvinnuleyfi í landinu. 

Flugrekstrarleyfi veldur vandræðum 

Fari svo að endurreist WOW air fá íslenskt flugrekstrarleyfi þarf félagið að takast á við aðra áskorun sem felst í því að eigendur flugfélags með flugrekstrarleyfi innan EES þarf að vera í meirihlutaeigu ríkisborgara innan svæðisins og er því ekki nóg að stofna íslenskt félag utan um WOW sem yrði í bandarískri eigu. 

Til að komast hjá þessu má telja líklegt að farin verði álíka leið og Indigo Partners fóru varðandi eignarhald sitt í ungverska flugfélaginu Wizz Air með notkun kauprétt og B-hluta eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í desember í fyrra. 

Stikkorð: Wow air Michele Ballarin