Fjárfestingarskortur í hagkerfinu er slíkur að tekið er að ganga á fjármagnsstofn þjóðarbúsins. Fjárfestingarstig nægir ekki til að standa undir afskriftum þeirra fjármuna sem eru í landi vegna uppsafnaðrar fjárfestingar síðustu áratuga.

Ef athugaður er fjármagnsstofn aftur til ársins 1970 kom um 2008 í fyrsta sinn í ljós markverð neikvæð þróun á andvirði hans. Fjárfestingarstig í hagkerfinu er mjög lágt en fjárfesting jókst einungis um 4,4% á síðasta ári samanborið við 14% aukningu árið 2011. Sé fjárfesting í skipum og flugvélum undanskilin þá dróst fjárfesting árið 2012 saman um 4,7% miðað við fyrra ár.

Samtök iðnaðarins áætla fjárfestingarþörf í hagkerfinu mikla og kemur sú niðurstaða heim og saman við neikvæða þróun fjármagnsstofns. Sé litið á alla fjárfestingu í hagkerfinu þá nam hún um 14% af landsframleiðslu á síðasta ári. Samtökin telja þetta hlutfall þurfa að ná um 21-24% af landsframleiðslu á næstu fimm árum. Fjárfestingar þurfa að aukast í heild um 100- 150 milljarða króna á ári svo þetta mark náist.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.