„Rétt til að kalla sig leiðsögumann ferðamanna hefur sá einn sem til þess hefur leyfi Ferðamálastofu. Sama á við um erlend starfsheiti sömu merkingar.“

Svona hljóðar 1. grein nýs lagafrumvarps sem lagt hefur verið fram á Alþingi af þingmönnum fjögurra stjórnmálaflokka. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Í greinargerð með frumvarpinu stendur að í lagagreininni felist að starfsheitið „leiðsögumaður ferðamanna“ sé lögverndar. Ákvæðið eitt og sér takmarki ekki heimild annarra en leiðsögumanna ferðamanna til að veita ferðamönnum leiðsögu heldur til að nota það starfsheiti.

„Til að taka af allan vafa er tekið fram í síðari málslið greinarinnar að ákvæðið taki til erlendra starfsheita sömu merkingar. Átt er við erlend samheiti leiðsögumanns ferðamanna. Þeim einum sem hefði leyfi skv. 1. gr. væri því t.d. heimilt að nota enska starfsheitið „tourist guide“ hérlendis,“ segir jafnframt í greinargerðinni.

Frumvarpið má lesa í heild sinni hér.