Haraldur Þórðarson, framkvæmdastjóri Fossa markaða, sagði það vekja athygli erlendra fjárfesta að kjósa í þriðja sinna á fjórum árum og fimmta sinn á rúmlega tíu árum á hádegisverðarfundi Amerísk-íslenska viðskiptafélagsins á mánudaginn.

„Ef ég gæti sagt ykkur hversu miklum tíma við hjá Fossum mörkuðum erum búin að eyða í að útskýra mjög sérstakar spurningar undanfarin ár,“ sagði Haraldur. „Spurningar um sprungnar ríkisstjórnir, hvað eru uppreist æra og óflekkað mannorð. Hugtök sem eru ekkert til erlendis. Er virkilega til stjórnmálaflokkur sem heitir Píratar og svo framvegis,“ segir Haraldur.

Haraldur sagði að það væri þó ekki óyfirstíganlegt verkefni að setja erlenda fjárfesta inn í íslensk stjórnmál. „Í þessu samhengi má benda á að það hefur gengið á ýmsu í stjórnmálunum annars staðar í heiminum. Við erum með Donald Trump í Hvíta húsinu. Bretar eru að fara út úr Evrópusambandinu og sumir líta svo á að við höfum það bara tiltölulega gott hvað varðar pólit­íska áhættu miðað við mörg önnur ríki,“ sagði Haraldur.

Þá sé bæði rammaáætlun um fjárlög til fimm ára og traust embættismannakerfi á Íslandi. „Óháð því hvaða ríkisstjórn tekur við, hvernig hún er samansett, þá er ekkert ofboðslega mikið rými til þess að taka u-beygju sem hefur áhrif á efnahagslega velferð okkar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .