„Okkur var refsað fyrir að vilja nota arðinn af eigninni til að byggja hana upp,“ segir Friðrik Skúlason, fyrrverandi eigandi hugbúnaðarfyrirtækisins Friðrik Skúlason ehf, sem þróaði og framleiddi vírusvarnir. Hann segist í samtali við Fréttablaðið hafa neyðst til að selja fyrirtækið í fyrra vegna auðlegðarskattsins sem lagður var á hann. Friðrik átti nánast öll hlutabréf fyrirtækisins ásamt eiginkonu sinni. Þau voru í samræmi við það rukkaðir sem eigendur stórrar eignar. Friðrik segir í samtali við Fréttablaðið í dag að fyrirtækið hafi verið nokkuð hundruð milljóna króna virði og skuldlaust. Þau hjónin hafi hins vegar ekki viljað greiða sér arð úr félaginu heldur nota hann til að byggja fyrirtækið upp. Á sama tíma voru þau rukkuð um svo háan auðlegðarskatt að hann jafngilti því að þau hefðu ekki fengið nein laun greidd í fjóra mánuði á ári. Friðrik segir nokkra kosti hafa verið í stöðunni. Hann ahfi m.a. getið skuldsett fyrirtækið til að borga sér hærri laun svo hann gæti borgað auðlegðarskattinn eða skorið niður og greitt sér arð til að greiða skattinn. Einfaldasta leiðin var hins vegar að selja reksturinn.

Félag Friðriks er nú í eigu bandaríska fyrirtækisins Commtouch og heitir í dag Commtouch Iceland ehf. Eftir söluna voru nokkrar deildir innan fyrirtækisins lagðar niður eða fluttar úr landi en við það misstu um 20 manns vinnuna.

Friðrik segir jafnframt að fyrirtækið hafi skilað nokkrum milljörðum króna til landsins enda starfaði það að öllu leyti hér á landi. Nú er staðan ekki sú sama.

Mótmæla auðlegðarskattinum

Að minnsta kosti tvö mál eru rekin fyrir dómstólum þar sem undir er m.a. hvort skatturinn brjóti í bága við stjórnarskrá. Í öðru málinu stefnir Guðrún Lárusdóttir , framkvæmdastjóri Stálskipa í Hafnarfirði, ríkinu til endurgreiðslu 35 milljóna króna sem hún hefur greitt í auðlegðarskatt. Þá hefur lögmaðurinn Hróbjartur Jónatansson skrifað um auðlegðarskattinn í Viðskiptablaðinu og hefur hann líkt auðlegðarskattinum við eignaupptöku.