„Þessi úrskurður, við bara hreinlega botnum hvorki upp né niður í honum,“ segir Karl B. Örvarsson, framkvæmdastjóri Skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði. Fyrirtækið var eitt þeirra sem skellti í lás í fyrstu bylgju farsóttarinnar og sótti síðan um lokunarstyrk. Niðurstaðan er hins vegar sú að félagið fær hann ekki þar sem að það, að mati Skattsins og yfirskattanefndar, hefði fallið undir undanþáguákvæði lokunarreglnanna sem skóli.

Skólabúðirnar Reykjaskóla eru flestum kunnar en venjan er að nemar í sjöunda bekk heimsæki þær og dvelji að Reykjum í viku. Árlega koma þangað um 3.000 nemendur, yfirleitt í um hundrað manna hollum. Nemendur gista á heimavist skólans og er hópefli, í formi íþrótta, kvöldvaka og ýmiskonar hópaverkefna, líkt og rauður þráður í gegnum starfið.

Þegar öllu var skellt í lás í fyrravor barst stjórnendum Skólabúðanna bréf frá sveitarstjóra Húnaþings vestra – sú á jafnframt sæti í almannavarnanefnd svæðisins – þar sem fram kom að sökum smithættu gæti hefðbundin starfsemi ekki farið fram. Varð það úr að búðunum var lokað frá 10. mars og til 4. maí. Eðli málsins samkvæmt fylgir slíku tekjufall og sótti félagið um lokunarstyrk. Þeirri umsókn hafnaði Skatturinn og taldi að starfseminni mætti jafna við fræðslustarfsemi handa börnum og að mögulegt hefði verið að aðlaga hana breyttum aðstæðum.

Telur forsendurnar „algjört grín“

Sú niðurstaða var kærð til yfirskattanefndar og byggt á því að það gengi ekki upp. Nærtækara væri að líta svo á að starfsemin væri sambærileg starfsemi íþróttastarfsemi. Þá væri vandséð hvernig það ætti að ganga upp að hólfaskipta starfseminni enda afar hæpið að nokkur skóli hefði lagt norður í land með nemendur í ljósi aðstæðna í samfélaginu. Enn fremur var bent á það að samkvæmt bréfi sveitarstjóra hefði þeim verið gert að loka öllu saman.

Undir meðferð málsins hjá yfirskattanefnd fékk heilbrigðisráðuneytið að koma að umsögn um efnið. Kom þar fram það álit ráðuneytisins að á þeim tíma sem atvik málsins urðu hefðu verið takmarkanir á skólastarfi en skólum hefði aftur á móti ekki verið gert að loka. Hið sama hefði átt að gilda um Skólabúðirnar og þeim hefði ekki verið skylt að loka. Nefndin féllst á það með ráðuneytinu að starfsemin væri svo nátengd skóla- og æskulýðsstarfi að ekki hefði verið skylt að loka.

„Við ráðfærðum okkur bæði við skólana og sveitarstjórnina hérna og töldum það alveg gefið að við þyrftum að loka. Skólabúðirnar myndu ekkert ganga ef við værum með nemana í einhverjum hólfum á gömlu heimavistinni eða matsalnum þar sem þeir mættu ekki hittast eða kynnast,“ segir Karl sem telur forsendur ráðuneytisins og nefndarinnar „algjört grín“.

Íhuga að höfða dómsmál

Eðli málsins samkvæmt var tekjufallið algjört á meðan lokuninni stóð og menn þurftu að troða marvaða til að tryggja að ekki færi illa. Karl segir að sem betur fer hafi félagið verið vel rekið en engu að síður hafi verið nauðsynlegt hafi verið að fækka starfsfólki og leita á náð vina og vandamanna til að komast gegnum skaflinn. Þegar seinni bylgjur riðu yfir stóð starfsemi yfir en þó þannig að að hámarki fimmtíu máttu vera á staðnum í einu.

„Ég get alveg sagt þér að þetta var mjög erfitt og við skiljum ekkert í því hvernig þetta var niðurstaðan. Úrskurðurinn er fleiri, fleiri síður með rökum sem hvorki halda vatni né vindi þannig ég skal hundur heita ef þetta verður virkilega endanleg niðurstaða,“ segir Karl.

Til skoðunar er að hvort rétt sé að bera málið undir dómstóla en ákvörðun um slíkt hefur ekki verið tekin. Þar til, ef og þegar, verða Skólabúðirnar að sætta sig við að fá ekki krónu í lokunarstyrk.