Mikil umræða hefur verið í íslensku þjóðfélagi út af auknum ferðamannastraumi og má búast við að sú umræða muni færast í aukana eftir því sem sumarnæturnar verða bjartari og ferðamenn streyma til landsins yfir háannatíma sumarsins. Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík, hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig best er að bæta nýtingu þeirrar miklu auðlindar sem íslensk náttúra er og hvernig hámarka eigi nýtingu innviða landsins án þess að ganga of langt gagnvart náttúruauðlindinni.

Ekki fallegar hagamýs

Meet in Reykjavík markaðssetur Reykjavík og Ísland sem áfangastað fyrir alþjóðlegar ráðstefnur, hvataferðir og viðburði, en í síðustu viku kom út skýrsla, sem félagið gefur út um gjaldeyristekjur af þessum svokölluðum MICE ferðamönnum.

„Meet in Reykjavík er sameiginlegur markaðsvettvangur fyrir fyrirtæki sem eru að sækja á og markaðssetja inn á MICE markaði, sem eru ekki fallegar hagamýs, heldur stendur fyrir „meeting, incentive, conference and events“, sem er þessi funda-, hvataferða-, ráðstefnu- og viðburðamarkaður," segir Þorsteinn Örn.

„...voru stofnfélagar 19 fyrirtæki, ferðaskrifstofur, ráðstefnuskrifstofur, hótel og fyrirtæki með ýmsa þjónustu sem hafa hag af vegsemd þessa hluta markaðarins og sjá fram á þörfina á að að setja athyglina á þennan betur borgandi gest, sem er í rauninni að mörgu leiti allt öðruvísi en hinn hefðbundni ferðamaður.“

Skýrsla félagsins fyrir árið 2015 sýni að gjaldeyristekjurnar af þessum hópi hafi verið 33 milljarðar íslenskra króna: „...þá sést að fyrir hvert prósent sem við myndum auka hlutfall MICE gesta af heildarfjöldanum án þess að breyta heildarfjöldanum, myndu gjaldeyristekjurnar aukast um 2,2 milljarða,“ segir Þorsteinn Örn.

„Það er um 13,4% meðalvöxtur síðustu árin, en...við erum samt sem áður að minnka hlutfall þessara gesta í blöndunni, sem ætti að valda okkur áhyggjum,“ segir hann og notar þar líkingamál um að verið sé að þynna súpu, en þess í stað ætti að bragðbæta hana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .