Óli Björn Kárason er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og nýr formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að endurskoða þurfi hlutverk Seðlabankans og peningastefnuna í landinu. Hann telur mikilvægt að vinna með öllum flokkum til að styrkja velferðarkerfið.

Hefurðu einhverja skoðun á því hvað Íslendingar ættu að gera í peninga- og gjaldeyrismálum?

„Þegar ég var ungur og róttækur sótti ég í smiðju Hayeks og skrifaði um að það ætti að gefa útgáfu peninga frjálsa. Hugmyndin er mjög heillandi og skemmtileg og hún gengur upp, en pólitískt er hún óframkvæmanleg. Auðvitað hefði ég helst kosið að við gætum bara ráðið því sjálf hvaða mynt við notum, ef við eigum viðskipti á milli hver annars komum við okkur bara saman um hvort við viljum eiga þau í krónum, bandaríkjadal, evrum eða hvaða gjaldmiðli sem er. Það mun hins vegar aldrei ganga upp heldur, að minnsta kosti ekki á næstu árum eða áratugum.

Það er hins vegar ljóst að við þurfum að endurskoða lögin um Seðlabankann og hlutverk Seðlabankans, og við þurfum að ganga í gegnum ákveðna endurskoðun á peningastefnunni. Ég hef gagnrýnt Seðlabankann á undanförnum árum fyrir hávaxtastefnu sína, ég hef haldið því fram að Seðlabankinn hafi með hávaxtastefnu sinni lagt á „leynda skatta“ á heimili og fyrirtæki, og ég hef ekki séð nein efnahagsleg rök fyrir því að halda vöxtum hér eins háum og bankinn hefur gert. Ég held að þessi stefna hafi gert það að verkum að við náðum okkur ekki jafn fljótt upp eins og við hefðum getað gert, fyrir utan arfavitlausa skattastefnu hér í tíð vinstri stjórnar.“

Nú er þingið nýfarið af stað. Áttu von á jákvæðu samstarfi við stjórnarandstöðu á kjörtímabilinu?

„Í nefndum starfa stjórn og stjórnarandstaða t.d. ágætlega saman. Auðvitað takast menn á og það er auðvitað hluti af því að vera í stjórnmálum. Ég er t.d. ekki talsmaður þess sem menn hafa kallað umræðustjórnmál, auðvitað eiga menn að takast á um hugmyndir og skoðanir sínar og síðan geta menn komist að niðurstöðu. Við erum ekki með sömu skoðanir og höfum ólíkar hugmyndir í ýmsu, ég tek t.d. ekki undir margt hjá Vinstri grænum en þó sumt.

Ég tel mig eiga mikla samleið með VG og fleiri flokkum þegar kemur að almannatryggingakerfinu. Ég held að það sé skylda okkar að tryggja það að bæði eldri borgarar og öryrkjar hafi hér mannsæmandi líf og ég tel að það eigi að setja opinbera fjármuni í slíkt. Ég er talsmaður þess að skera upp almannatryggingakerfið þegar kemur að öryrkjum, með svipuðum hætti og gert var með eldri borgara, en ég vil ganga lengra og styrkja hag þeirra meira heldur en gert hefur verið. Mér finnst ég bera siðferðilega skyldu til þess. En til að hægt sé að standa sómasamlega að verki og styrkja velferðarkerfið, er nauðsynlegt að breyta hugsunarhætti og vinnubrögðum okkar sem förum með fjárveitingarvaldið.

Ég fór yfir hvern einasta fjárlagalið fyrir fjárlögin 2013 og flokkaði eftir því hvort hann tilheyrði grunnhlutverki ríkisins eða stæði þar fyrir utan. Grunnhlutverk ríkisins er auðvitað stjórnsýslan, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, samgöngurnar, öryggismál og almannatryggingar. Allt annað setti ég út fyrir sviga. Á þeim tíma stóð um það bil einn sjötti af útgjöldum ríkisins fyrir utan þetta grunnhlutverk. Á sama tíma voru flestir sammála um að það vantaði meiri pening í heilbrigðiskerfið, almannatryggingar, samgöngur og skólamál. Við vorum samt sem áður að taka ákvörðun um það að verja þessu hlutfalli fjármuna í aðra hluti. Auðvitað er ýmislegt þarna fyrir utan sem við viljum hafa og viljum kannski setja fjármuni í, en við vorum ekki að byrja á réttum enda.“

Það hefur verið slegið fram í fyrirsagnir að um sé að ræða „hægri sinnuðustu ríkisstjórn lýðveldissögunnar“. Er það endilega neikvætt?

„Ég hefði nú ekki haldið það, en auðvitað fer það eftir því frá hvaða sjónarhóli menn horfa á hlutina. Ég er nú ekki viss um að þetta sé satt og dreg þetta meira að segja í efa. Ég tel að ríkisstjórn sem boðar t.d. aukin afskipti af atvinnulífinu, eins og þessi er vissulega að gera með því að leiða í lög jafnlaunavottun, sé nú ekkert sérlega hægri sinnuð.“

Þú myndir sjálfur varla mæla fyrir slíkri lagabreytingu?

„Ég mun ekki styðja slíka lagabreytingatillögu.“

Nánar er fjallað við Óla Björn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .