Frumvarpi Bjarna Benediktssonar um opinber fjármál var dreift á Alþingi í dag. Í frumvarpinu er meðal annars kveðið á um 45% skuldaþak. Bjarni gerði grein fyrir frumvarpinu í ræðu á ársfundi Seðlabanka Íslands fyrir helgi.

Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum en að viðbættum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en sem nemur 45% af vergri landsframleiðslu.Við núverandi aðstæður sé umrætt skuldahlutfall hins opinbera um tveir þriðju af landsframleiðslu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að sé skuldahlutfallið hærra en 45% skuli sá hluti sem umfram er lækka að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili um að minnsta kosti 5% á hverju ári. Í greinagerð með frumvarpinu segir að þetta markmið þýði við núverandi aðstæður að stjórnvöld þurfa á næstu árum að greiða niður skuldir hins opinbera niður um 17 milljarða króna árlega að lágmarki. Þá er ótalinn sá vaxtakostnaður sem þarf að greiða.

Í greinargerð með frumvarpinu segir einnig að með áðurnefndum fjármálareglum sé lagður grunnur að skýru verklagi við stefnumörkun í opinberum fjármálum. Á grunni skilgreinds verklags og tölulegra markmiða séu sett skýr skulda- og afkomuviðmið sem veiti löggjafanum jafnt sem framkvæmdarvaldinu ótvírætt aðhald. „Með fjármálareglum frumvarpsins er því leitast við að skapa víðtæka sátt um langtímamarkmið í opinberum fjármálum svo að festa ríki í framsetningu þeirra frá einu kjörtímabili til annars,“ segir í frumvarpinu.