Það má með sanni segja að Katrínu Olgu Jóhannesdóttur, stjórnarformanni Já, sé fátt óviðkomandi þegar kemur að íslensku atvinnu- og viðskiptalífi. Hún er viðskiptafræðimenntuð frá Háskóla Íslands og með meistarapróf frá Háskólanum í Óðinsvéum. Síðan þá hefur hún komið víða við og starfaði m.a. sem markaðsstjóri Halldórs Jónssonar/Listadún Snæ­lands, sem rekstrarráðgjafi hjá VSÓ ráð­ gjöf, var framkvæmdastjóri markaðssviðs og síðan einstaklingssviðs Símans og framkvæmdastjóri Stjórnunarsviðs Skipta. Hún er um þessar mundir einnig stjórnarmaður í Icelandair Group og Ölgerðinni og situr jafnframt í fjárfestingaráði Akurs og háskólaráði Háskólans í Reykjavík. Þá sat hún áður í bankaráði Seðlabanka Íslands, svo fátt eitt sé nefnt.

Spurð um stöðu Já á tímum uppgangs í efnahagslífinu segir Katrín Olga að rekstur félagsins hafi verið með þeim hætti undanfarin ár að hagsveiflur hafi ekki haft mikil áhrif. Að því sögðu finni þau að sjálfsögðu fyrir auknum væntingum og bjartsýni hjá viðskiptavinum fyrirtækisins.

„Reksturinn gengur vel, félagið hefur verið á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki frá upphafi og undanfarin ár hefur það verið í einu af efstu sætunum á lista yfir millistór fyrirtæki,“ segir hún og bætir við að hagnaður félagsins hafi í fyrra numið 127 millj­ ónum króna og að framtíð félagsins sé spennandi. „Sem stjórnarformaður hef ég lagt mikla áherslu á stefnumiðaðan vöxt og útvíkkun starfseminnar. Félagið hefur gjörbreyst á undanförnum árum og framtíðin mun fela í sér enn frekari breytingar. Sem dæmi má nefna að Já keypti allt hlutafé í Gallup í fyrra og undanfarið ár höfum við unnið að því að samþætta rekstur fyrirtækjanna. Framtíðarsýn félagsins er gagnadrifin, við viljum vera leiðandi upplýsingafyrirtæki á Íslandi og við höfum þá trú að hægt sé að styrkja bæði vörumerkin Já og Gallup enn frekar, enda er nýsköpun hluti af DNA fyrirtækisins og margt spennandi þar í gangi.“

Fyrst kvenna til að leiða Viðskiptaráð

Já hefur gengið í gegnum miklar breytingar undanfarin ár og að sögn Katrínar Olgu færst frá útgáfu á pappír yfir í að nýta allt það nýjasta sem tæknin býður upp á. „Við höfum stundum velt því fyrir okkur hvort við séum tæknifyrirtæki eða þjónustufyrirtæki. Niðurstaðan er að Já er fyrirtæki sem höndlar með upplýsingar og nýtir til þess tæknina. Hér eiga eftir að eiga sér stað miklar breytingar – gögn eru gull framtíðarinnar og á þeim byggjum við starfsemi okkar. Við áttum okkur á að við störfum í alþjóðlegu umhverfi en þekking okkar á íslenskum fyrirtækjum og þörfum þeirra skapar sérstöðu okkar. Á því byggjum við til framtíðar.“

Nú varst þú nýlega kjörin formaður Viðskiptaráðs Íslands, hvaða áherslur kemur þú með inn í starfið? Fylgja þér einhverjar sérstakar breytingar?

„Ég hef setið í stjórn Viðskiptaráðs frá 2010 og tekið þátt í starfinu og mótun þeirrar stefnu sem við höfum fylgt frá þeim tíma. Við höfum lagt áherslu á þá vinnu sem lögð var í McKinsey-skýrsluna, þar sem áherslur voru lagðar fyrir fimm svið, þ.e. makró, alþjóðageirann, auðlindageirann, innlenda þjónustugeirann og opinbera geirann. Þetta eru einnig þættir sem Samráðsvettvangur um aukna hagsæld hefur verið að fjalla um og kynntir voru vorið 2013. Tillögurnar rötuðu margar inn í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og höfum við í Viðskiptaráði verið að fjalla um hvern geira fyrir sig síðustu þrjú ár. Núna í ár erum við með áherslu á innlenda þjónustugeirann, m.a. með áherslu á samkeppnisumhverfi, framleiðni í þeim geira og höfum skoðanir á t.d. nýjum búvörusamningi sem fellur undir þann geira.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .