Margrét Reynisdóttir.
Margrét Reynisdóttir.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ég er búin að vera með námskeið um samskipti við erlenda gesti í þrjú ár og það er alveg augljóst að það er mikil þekking um þessi málefni til staðar á Íslandi en hún hefur hingað til verið frekar dreifð,“ segir Margrét Reynisdóttir, höfundur bókarinnar Þjóðerni og þjónusta, sem er ný bók um hvernig best megi þjónusta erlenda ferðamenn.

„Þetta er handbók til að hafa aðgengilegar upplýsingar á einum stað, þannig að fólk hafi tækifæri til að verða sér úti um þekkingu um þessi málefni með fljótlegum hætti,“ segir hún.

Íslendingar með miklar sérþarfir

Í bókinni eru veitt ráð við því hvernig best sé að koma fram við ólík þjóðerni líkt og Þjóðverja, Ísraela, Kínverja, Breta og Spánverja svo örfá séu nefnd. Margrét segist hafa safnað upplýsingum um bókina í þrjú ár og að rannsóknin hafi að mestu verið unnin upp úr viðtölum sem hún hefur tekið á þeim tíma.

Til að þekkja aðrar þjóðir vel segir Margrét mikilvægt að við þekkjum okkar eigin þjóð í þaula. „Í þeim hluta bókarinnar sem rætt er almennt um þjónustu og gildi hennar, þá byrja ég að tala um Íslendinga vegna þess að við þurfum að þekkja okkur til þess að þekkja aðrar þjóðir. Við erum með heilmikið af sérþörfum þegar við ferðumst um landið sem fólk af öðru þjóðerni hefur síður. Við höfum ekki ferðast um hálfan hnöttinn til að koma hingað líkt og t.d. Japanir og getum þess vegna tekið því rólegra. Þeir vilja kannski nýta hverja einustu mínútu til að sjá sem mest á meðan við viljum kannski mæta seint, borða vel og sofa síðan út.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .