Forsetafrúin Eliza Jean Reid, hefur mikinn áhuga á nýsköpun og sprotafyrirtækjum. Spurð um hver sé helsti munurinn á umhverfi nýsköpunarfyrirtækja hér á Íslandi og í fæðingarlandi hennar Kanada, segir Eliza að Íslendingar séu að hennar mati opnari fyrir nýjungum heldur en mörg önnur stærri lönd.

„Það eru mörg ár síðan ég bjó í Kanada þannig að það er kannski erfitt fyrir mig að segja nákvæmlega til um það, en Ísland byggir vel menntuð þjóð sem er forvitin og tekur nýjungum opnum örmum. Aftur á móti er sérhæfingin minni hér en víða annars staðar þar sem fólk lokast oft inni á þröngu sviði; við erum svo fá að við þurfum oft að sinna mörgum hlutverkum. Ég get nefnt sem dæmi að þegar ég og vinkona mín vorum að byrja með Iceland Writers Retreat, skrifuðum við niður markmið okkar og gerðum áætlun. Þegar við höfðum samband við fyrirtæki í leit að styrkjum og þar rákum við okkur aldrei á það að fyrirtækin settu það fyrir sig að við hefðum aldrei skipulagt slíkan viðburð áður. Fólk hlustaði á hugmyndina okkar, spurði okkur í þaula til að kanna hvort hún væri hugsuð út í hörgul og var opið fyrir þessari nýju hugmynd.

Í litlu samfélagi þurfum við að hafa eiginleikann til að geta sett upp marga mismunandi hatta. Það er til dæmis ekki hægt að vera manneskja sem skipuleggur bara rithöfundaþing, heldur er mikilvægt að geta gert marga hluti. Það eru þó einnig vissar áskoranir til staðar hér sem eru ekki endilega til staðar annars staðar. Til dæmis þurfum við að efla og auka fjölbreytni við menntakerfið okkar fyrir fólk af erlendum uppruna, meðal annars til þess að laða alþjóðleg stórfyrirtæki og starfsmenn þeirra hingað til lands. Heimurinn er sífellt að minnka með auknum samskiptum, viðskiptum á alþjóðavísu og tækifærum á milli landa. Ísland og Íslendingar hafa alla burði til að vera stórtækir þátttakendur í þeirri þróun, hvort sem við horfum til starfsemi fyrirtækja, menntastofnana og annarra hér á landi eða þeirra tækifæra sem Íslendingar geta gripið erlendis. Hugmyndaauðgi þjóðarinnar og móttækileiki fyrir nýjum hugmyndum er mikill kostur. Sem samfélag erum við einnig dugleg að horfa til framtíðar, sem er jákvætt hvernig sem á það er litið."

Þurfum að vera óhrædd við að koma út úr skelinni

Nýsköpunarfyrirtæki standa frammi fyrir mikilli áskorun þegar kemur að fjármögnun þar sem við erum fámenn þjóð, fjárfestar á þessu sviði ekki margir og fjármagn takmarkað. Að mati Elizu er því mikilvægt að kynna vel það sem við erum að gera á erlendri grundu.

„Fyrir okkur Íslendinga felst mikill styrkleiki í því að tilheyra Norðurlöndunum. Það styrkir markaðsstöðu okkar verulega auk þess sem rík samvinna er milli nýsköpunargeira Norðurlandanna.

Íslensk nýsköpunarfyrirtæki eiga að vera ófeimin við að kynna starfsemi sína á alþjóðlegum markaði og geta gert það í mun ríkari mæli en nú er. Ég, sem einstaklingur af erlendu bergi brotin, hef tekið eftir því að það virðist vera eitt af einkennum Íslendinga að það megi aldrei monta sig, það má vera stoltur en maður á aldrei að monta sig. Stundum finnst mér þetta viðhorf ganga aðeins of langt. Það er margt sem við megum vera stolt af og við eigum að vera óhrædd við að segja frá því. Það þýðir ekki endilega að við séum að monta okkur þó við segjum það bara hreint út að við séum góð í einhverju tilteknu atriði. Við gætum því klárlega bætt okkur í því að segja frá því á erlendum vettvangi sem við erum að gera vel, vera sýnilegri og koma fram af meira sjálfstrausti til að tala um það og fyrir því sem við erum að gera".

Eliza segir að íslensk nýsköpunarfyrirtæki þurfi einnig að huga að því að mynda tengslanet sem nær út fyrir landsteinana. Hún nefnir sem dæmi að nýsköpunar- og sprotageirar Norðurlanda starfi vel saman að því í Bandaríkjunum að markaðssetja samstarfsverkefni norrænna fyrirtækja.

„Margir eiga sterkt tengslanet hér á Íslandi, en að sama skapi skortir oft tengingar erlendis sem verður til þess að það hamlar fólki að kynna starfsemi sína erlendis. Þá er ekki hægt að hringja í vin sinn eða frænku til að koma sér á framfæri," segir Eliza. „Við þurfum því að nýta og byggja enn betur upp tengslanet víðar en hér á Íslandi. Þetta er ekki eitthvað sem kemur af sjálfu sér, heldur þarf að leggja mikla vinnu í að læra á þetta alþjóðlega umhverfi. Fólk þarf að vera óhrætt við að koma út úr skelinni til þess að koma sér á framfæri."

Nánar er rætt við Elizu í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .