*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 21. febrúar 2021 19:01

„Þurfum ekki meiri pening í bili“

Heildarvirði Klang Games var yfir 15 milljarðar króna í ágúst 2019 þegar félagið fékk 2,7 milljarða fjármögnun.

Júlíus Þór Halldórsson
Guðmundur Hallgrímsson, betur þekktur sem Mundi vondi, segir upphaflega stofnendur enn eiga „góðan hlut“ í Klang.
Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Klang Games var metið á 120 milljónir dala – yfir 15 milljarða króna á núverandi gengi – í ágúst 2019 þegar það lauk annarri fjármögnunarlotu sinni.

Þetta kemur fram í skráningarlýsingu félags sem Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir leiðir og birt var nýlega, en fjárfestingafélag hans, Novator, er einn af aðalfjárfestum Klang.

Eiga enn góðan hlut
Guðmundur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Klang, – betur þekktur sem Mundi vondi – segir skiptingu eignarhaldsins trúnaðarmál, en staðfestir að um 19% hlutur hafi verið seldur í seinni lotunni, sem er hlutfall fjármögnunarupphæðarinnar af heildarvirðinu.

Árið 2015 fékk félagið 85 milljón króna fjármögnun frá London Venture Capital miðað við heildarvirði upp á tæpan milljarð, sem gera má ráð fyrir að hafi þá numið tæpum 10% eignarhlut. Meira hefur verið selt, en ekki liggur fyrir hversu mikið. Mundi segir þó upphaflega stofnendur enn eiga „góðan hlut“ í félaginu.

Umfang rekstrarins hefur aukist talsvert síðan í áðurnefndri fjármögnunarlotu og Mundi segir góðan gang í starfseminni. Starfsmenn eru um 60 í dag, samanborið við 40 í fyrra. Aðspurður segist hann ekki sjá fram á frekari fjárþörf á næstunni. „Við þurfum ekki meiri pening í bili.“

Vonast eftir tí- til hundraðföldun þegar fram líða stundir
Mundi segir líklegt að heildarvirði fyrirtækisins yrði meira í dag, enda þróun tölvuleikjarins SEED komin lengra á veg.

„Tölvuleikjagerð er náttúrulega þannig að við erum að vona það að heildarvirðið verði tífalt eða hundraðfalt það sem það var í þeirri lotu. Við förum hins vegar ekkert að sjá það koma í ljós fyrr en við förum almennilega að setja leikinn í hendurnar á spilurum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.