Íslendingar fjárfestu í erlendum verðbréfum fyrir 45 milljarða króna í september samkvæmt tölum Seðlabankans. Þegar talað er um verðbréfafjárfestingu Íslendinga erlendis er mest megnis átt við fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Á sama tíma námu kaup útlendinga á íslenskum verðbréfum 1 milljarða króna í september. Frá þessu var fjallað í Fréttablaðinu .

Heildarfjárfesting Íslendinga í erlendum verðbréfum hefur numið 130 milljörðum króna það sem af er ári en á sama tímabili hafa útlendingar fjárfest fyrir 3 milljarða í íslenskum verðbréfum.

Fréttablaðið hafði upp á Stefáni Brodda Guðjónssyni, sérfræðing hjá Arion banka. Stefán segir tölurnar sýna svo að ásókn útlendinga í íslenska vexti sé ekki að valda óstöðugleika í hagkerfinu. Þvert á móti þurfi frekar að hafa áhyggjur af of lítilli erlendri fjárfestingu á meðan útflæðið er svona mikið.

„Tölurnar gefa til kynna að það sé frekar útstreymi frá íslenskum fjárfestum sem ætti að valda óstöðugleika heldur en innstreymi að utan. Það setur mikla pressu á gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins og kemur í veg fyrir styrkingu krónunnar. Sumir hafa haft áhyggjur af fjárfestingum útlendinga hér á landi en um þessar mundir þurfum við á þeim að halda. Það vantar þátttakendur til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi,“ segir Stefán Broddi.