Tvær konur hafa bæst í hóp framkvæmdastjóra Icepharma, þær Þuríður Hrund Hjartardóttir og Solveig H. Sigurðardóttir.

Þuríður Hrund hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Smásölusviðs Icepharma. Þuríður hefur undanfarin tvö ár starfað hjá Icepharma sem framkvæmdastjóri Neytendavörusviðs sem nú hefur verið sameinað Íþróttasviði undir heitinu Smásölusvið.

Þuríður Hrund Hjartardóttir.
Þuríður Hrund Hjartardóttir.

Þuríður er 38 ára gömul með B.S.c gráðu í Alþjóðamarkaðsfræði frá Tækniháskóla Íslands. Á árum áður starfaði hún sem vörustjóri hjá Símanum og Össuri og sem vörumerkjastjóri hjá Vífilfelli. Áður en hún hóf störf hjá Icepharma árið 2010 starfaði hún sem kynningar- og markaðsstjóri hjá VBS fjárfestingarbanka. Þá hefur Þuríður starfað sjálfstætt að einstökum verkefnum á sviði stefnumótunar og endurskipulagningar fyrir minni fyrirtæki. Sambýlismaður Þuríðar er Róbert Orri Brooks Róbertsson, kerfisstjóri hjá Basis, og eiga þau saman einn dreng. Þá á Þuríður tvær stúlkur af fyrra hjónabandi.

Solveig H. Sigurðardóttir.
Solveig H. Sigurðardóttir.

Solveig hefur tekið við nýju starfi framkvæmdastjóra Samskiptasviðs Icepharma. Solveig hóf störf hjá Icepharma sem markaðsstjóri árið 2007 en hefur frá 2009 gegnt starfi gæðastjóra fyrirtækisins. Solveig lauk M.Sc. prófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 1992. Hún hóf störf í markaðsdeild Lyfjaverslunar Íslands hf. árið 1993 sem síðan sameinaðist Delta hf. Á árunum 2000–2007 starfaði Solveig sem rannsóknarfulltrúi hjá Eli Lilly Danmark A/S Útibú á Íslandi.

Solveig er gift Halldóri G. Eyjólfssyni verkfræðingi og eiga þau þrjú börn.