John Fenger, stjórnarformaður Thorsil, segir að framtíð heimsmarkaðs fyrir kísilmálm sé björt. Lækkanir síðustu mánaða eigi sér einfalda og eðlilega skýringu, en sívaxandi eftirspurn sé eftir kísilmálmi.

„Kísilmálmmarkaðurinn er mjög gamall, en verðið á honum sveiflast eins og á öðrum mörkuðum. Það sem er áhugavert við þennan markað er að síðustu þrjú árin hefur eftirspurn aukist um sex prósent að meðaltali á ári og er gert ráð fyrir því að eftirspurnaraukningin verði yfir sex prósentum á ári næstu fimm árin. Þetta gerir þennan markað frábrugðinn mörgum öðrum hrávörumörkuðum, eins og til dæmis fyrir stál og ál,“ segir John.

Hann segir rétt sem fram hafi komið að heimsmarkaðsverð á kísilmálmi sé í lægri kantinum nú, en fyrir því séu eðlilegar ástæður. „Árið 2014 voru miklir þurrkar í Brasilíu sem leiddu til raforkuskorts í landinu. Það gerði það að verkum að kísilmálmframleiðendur þar í landi sáu sér frekar hag í því að selja raforku sína inn á markaðinn en að nýta hana til framleiðslu á kísilmálmi. Megawattstundin var á þessum tíma komin yfir 200 dali og rafmagn því rándýrt. Þetta minnkaði framboð á kísilmálmi á heimsmarkaði og brugðust margir kaupendur við með því að birgja sig upp af málminum. Menn höfðu jafnvel áhyggjur af því að þetta yrði varanlegt ástand og að Brasilía væri endanlega farin út af kísilmálmmarkaði. Svo reyndist ekki vera og kísilmálmur frá Brasilíu kom aftur inn á markaðinn. Birgðasöfnun kaupenda gerði það hins vegar að verkum að eftirspurn eftir nýjum málmi minnkaði tímabundið meðan verið var að ganga á þessar birgðir.“

Viðtal við John Fenger er í Viðskiptablaðinu og er þar nánar fjallað um kísilmálmmarkaðinn og um Thorsil. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .