Eitt þúsund ferðamenn greiddu 600 krónur hver til að fara inn á svæði landeigenda við Geysi á laugardag. Það var fyrsta skiptið sem rukkað var inn á svæðið. Garðar Eiríksson, talsmaður landeigenda, segir í samtali við Morgunblaðið að ætla megi að dagurinn hafi skilað eigendum Geysissvæðisins 500 þúsund krónum. Búist var við álíka miklum fjölda við Geysissvæðið í gær.

Garðar bendir á að ríkið fái meira en helming af aðgangseyrinum, annað hvort í formi skatta eða í gegnum eignarhlut að svæðinu.

Fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins að 10 manns hafi verið ráðnir til að sinna þrifum, öryggisgæslu og gjaldtöku á svæðinu og vonar Garðar að landeigendur nái endum saman. Verði það raunin verði einhverjar milljónir eftir til framkvæmda á svæðinu.