Um þúsund umsóknir hafa borist í 60 til 70 stöður sem byggingaverslunin Bauhaus hyggst ráða í. Umsóknarfrestur rennur út 18. janúar næstkomandi. Gengið verður frá ráðningum eftir að frestur rennur út. Halldór Óskar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi, segir áhuga hafa verið gríðarlega mikinn, sem sé afar jákvætt. Búið er að ráða í störf deildarstjóra og stjórnenda en ekki í starf fyrirtækjastjóra. Stefnt er að opnun verslunarinnar á vormánuðum en ekki fæst gefið upp hvenær nákvæmlega hún verður.