Starfsfólk kínversku veflánaþjónustunnar Ezubao, sem voru 21 talsins, hefur nú verið handtekið fyrir að standa að baki gífurlega umfangsmikluPonzi-svindli.

Starfsfólkið sveik um 7,6 milljarða Bandaríkjadala, eða tæplega þúsund milljarða íslenskra króna,af viðskiptavinum sínum. Yfirvöld í Kína áætla að um 95% fjárfestingartilboðanna sem vefsíðan bauð upp á hafi verið svindl.

Ezubao var stofnað árið 2014 af manni að nafni Ding Ning, sem er einnig stjórnarformaður fyrirtækisins Yucheng Group. Hann var meðal þeirra handteknu.

Kínverska millistéttin hefur í auknum mæli sótt í veffjárfestingaáætlanir í von um um að auka við auð sinn á skjótan og öruggan hátt, en iðnaðurinn í kringum starfsemina hefur vaxið gríðarlega.

Ponzi -svindl er líkt með píramídasvindlum á þann hátt að fjárfestum er lofuð mjög mikil ávöxtum á fé sitt, en ávöxtuninni er aflað með fé nýrra fjárfesta, í stað þess að raunverulega skapa ný verðmæti með upprunalegu fjárfestingunni.