Sævar Jón Gunnarsson höfðaði í fyrra mál gegn Landsbankanum vegna 630 þúsund króna verðtryggðs neytendaláns sem hann tók í nóvember árið 2008.

Mál Sævars Jóns snýst í grófum dráttum um það hvort framkvæmd við veitingu verðtryggðra lána standist Evrópurétt. Málið fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur síðasta sumar þar sem farið var fram á að EFTA-dómstóllinn myndi gefa ráðgefandi álit á sex lykilspurningum um verðtrygginguna.

Fimm af þessum sex spurningum hefur þegar verið svarað. Það var gert í lok ágúst þegar EFTA-dómstóllinn birti ráðgefandi álit í máli Gunnars Engilbertssonar gegn Íslandsbanka. Það mál var höfðað vegna verðtryggðs húsnæðisláns, sem var tekið árið 2007. Meginniðurstaða dómstólsins var að tilskipun Evrópusambandsins (93/13/EBE), sem tekin var upp í apríl árið 1993 og fjallar um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, legði ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu í samningum.

Það hefur því tekið EFTA-dómstólinn ríflega tvo og hálfan mánuð að komast að niðurstöðu um sjöttu spurninguna. Sú spurning er reyndar talin sú mikilvægasta af þessum sex. Í henni er spurt hvort það samrýmist tilskipununum að við gerð verðtryggðs lánssamnings sé miðað við 0% verðbólgu í greiðsluáætlun en ekki þekkt verðbólgustig á lántökudegi.

Talið er að 90% til 95% verðtryggðra lánssamninga hérlendis séu með þessum skilmálum um 0% verðbólgu. Heildarfjárhæð verðtryggðra lána til einstaklinga hérlendis nemur um 1.300 milljörðum króna og því ljóst að miklir hagsmunir eru í húfi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .