Einar Karl Birgisson
Einar Karl Birgisson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
„Þetta er kannski ekki besti tíminn til að opna verslun eins og stóð til hérna í Austurhrauninu í Garðabæ, þar sem við erum með vörulagerinn og skrifstofurnar, en við höfum ekki opnað enn út af kórónuveirufaraldrinum,“ segir Einar Karl Birgisson, framkvæmdastjóri Cintamani. Einar Karl leiddi hóp fjárfesta í félaginu Cinta 2020 ehf., sem keypti vörumerki og lager Cintamani útivistarframleiðandans.

„Við opnuðum einungis vefverslunina á föstudaginn, og það er eiginlega búið að vera sturlað að gera síðan, enda fólk núna mikið heima við og tilbúið að nýta það að mega samt sem áður fara í göngutúra út í náttúruna. Ég var framkvæmdastjóri félagsins á árunum 2015 til 2018, og er að koma aftur að rekstrinum núna, og ég hef aldrei lent í öðru eins. Bara um helgina vorum við komnir með þúsund pantanir, og þetta ætlar engan endi að taka.

Við erum með annars vegar venjulega vefverslun, og síðan er Outlet í sérflipa, og við vorum að bæta þar við vörum því við erum að hreinsa út gamlan lager fyrir nýjum vörum sem við erum að fá með vorinu. Álagið á síðuna er búið að vera gríðarlega mikið, enda viðurkenni ég að verðin eru mjög hagstæð, til dæmis er ein kvenúlpa sem var á 69.995 krónur að seljast nú á 9.995 krónur.“

Einar Karl segir að félagið hafi ekki enn þurft að grípa til þeirra úrræða sem í boði eru í aðgerðaráætlunum stjórnvalda. „Það hefur samt mjög margt breyst á bara þeim tveim vikum síðan við keyptum og markaðsforsendurnar eru gjörbreyttar frá því sem við lögðum af stað með í upphafi. En miðað við þessar viðtökur höfum við ekki þurft að hafa áhyggjur af stöðunni enn,“ segir Einar Karl.

Fjöldi útivistarverslana í tómum miðbæ

„Við sáum mikil tækifæri í því að kaupa Cintamani, meðal annars því við getum byrjað með hreint borð og litla yfirbyggingu, þó höfum 30 ára sögu á bak við okkur,“ segir Einar Karl. „Styrkur Cintamani hefur alltaf legið í öflugum viðskiptamannagrunninum, sem í eru að megninu Íslendingar, en við höfum bara auglýst opnun netverslunarinnar í gegnum facebooksíðu félagsins.“

Þegar mest lét var Cintamani með fjórar verslanir til viðbótar við lagerverslunina í Garðabæ, það er á Laugavegi, Kringlunni, Smáralind og Akureyri en þeim síðustu var lokað í lok janúar. Þess má geta að í miðbænum þar sem nú er æði tómlegt um að litast án ferðamanna, sem og víða um land, eru fjölmargar útivistarverslanir á vegum annarra framleiðenda. Til dæmis er Ice Wear með sjö verslanir í miðbæ Reykjavíkur, Nordic Store með þrjár, 66° Norður með tvær verslanir og Zo-On eina.

„Við keyptum félagið á mjög sanngjörnu verði, en við erum líka að kaupa alla hönnun félagsins, bæði það sem búið er að framleiða og ekki enn búið að láta framleiða eftir, og erum við nú að meta þörfina fram á veginn. Cintamani er og verður framleiðslufyrirtæki og þar sem við látum framleiða fyrir okkur í Kína er framleiðslutíminn töluvert langur, og við höfum þurft að ræða við okkar framleiðendur þar, sem hafa þó sloppið við mestu áhrifin af veirufaraldrinum,. Við þurfum til að mynda að kaupa inn núna í apríl fyrir komandi jól, svo þetta er smá áhætta sem við þurfum að taka núna.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Þungt högg orkufyrirtækjanna vegna lækkunar álverðs sem hefur áhrif á raforkuverðið er skoðað
 • Aðgerðir vegna veirufaraldursins hafa umtalsverð áhrif á störf lögmanna, endurskoðenda og fasteignasala.
 • Fjallað er um áhrif fordæmalausra aðgerða seðlabankans á vaxtakjör fyrirtækja
 • Töluverðar breytingar hafa orðið á eftirspurn, líkt og vöxtum, helstu íbúðarlána sem í boði eru
 • Farið er ofan í sauma á sparnaði Samherja af því að komast hjá yfirtökutilboði sem félagið gerði í Eimskipafélag Íslands.
 • Rætt er við ferðaþjónustuaðila á landsbyggðinni um þróun afbókana og hve vel aðgerðir stjórnvalda dugi
 • Rýnt er í gegnum óvissuþokuna sem liggur yfir kauphallarfyrirtækjunum í ítarlegri úttekt
 • Grímur Sæmundssen forstjóri Bláa lónsins er í ítarlegu viðtali
 • Svipmyndum af heljargreiðum kórónuveirufaraldursins á heimsbyggðina er brugðið upp
 • Saga og svipleg endalok Wow air eru ryfjuð upp nú þegar rétt rúmt ár er siðan félagið eftirminnilega fór í gjaldþrot
 • Rætt er við nýjan upplýsingafulltrúa hjá Landsvirkjun um tímann hjá Björgólfi Thor og óvæntan tónlistarferil
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um aðhaldsleysi stjórnarandstöðunnar á þingi
 • Óðinn skrifar um Bláa lónið, Viðreisn og ríkisstarfsmanninn eilífa.