Frystitogarinn Örfirisey RE kom til heimahafnar í Reykjavík á sunnudag eftir ágæta veiðiferð. Aflinn var um 41 þúsund kassar eða um þúsund tonn upp úr sjó. Togarinn kom inn til millilöndunar 4. nóvember sl. en alls var veiðiferðin 30 dagar.

Frá þessu segir á heimasíðu Brims.

„Þetta var fín veiðiferð utan hvað Kári blés hressilega í tíma og ótíma. Við hrökkluðumst undan veðri á Hampiðjutorginu snemma í túrum og síðan þurftum við í tvígang að leita vars við Reykjanes vegna óveðurs. Þess á milli var hægt að vera á veiðislóð en veðrið var ekki skemmtilegt,“ segir Ævar Jóhannsson skipstjóri.

Að sögn Ævars hóf hann veiðar á Hampiðjutorginu. Þar fékkst blandaður afli.

„Aflabrögðin voru ágæt en við þurftum að fara af Torginu vegna veðurs. Við fórum þá norður og austur á Halann og þar lentum við í góðu ufsaskoti. Annars var aflinn á Halanum blandaður og heilt yfir var þetta í góðu lagi.“

Eftir millilöndunina í Reykjavík var svo öllum tíma varið á Suðvesturmiðum.

„Aflinn var góður, aðallega karfi og ufsi og svo fengum við gulllax ef farið var dýpra. Frátafir vegna veðurs voru talsverðar en ég er bara sáttur við þann árangur sem náðist,“ segir Ævar.