*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 1. apríl 2019 15:04

Þúsund umsóknir um bætur á 4 dögum

Vinnumálastofnun segir að meðtöldum þeim 1.100 sem missi vinnuna hjá Wow hafi 1.600 manns fengið uppsögn í mars.

Ritstjórn
Unnur Sverrisdóttir er starfandi forstjóri Vinnumálastofnunar.
Haraldur Jónasson

Á síðustu fjórum sólarhringum hefur Vinnumálastofnun borist um 1.000 umsóknir um atvinnuleysisbætur að því er RÚV greinir frá.

Býst stofnunin við fleiri umsóknum í tengslum við gjaldþrot Wow air, en alls hafi um 1.600 manns fengið uppsagnarbréf í marsmánuði, en meðal fyrirtækja sem sagt hafa upp fólki síðustu daga er Airport Associates, Lyfja, Pipar/TBWA og Kynnisferðir.

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar telur líklegt að allir 1.100 starfsmennirnir sem unnu hjá Wow en fái ekki greidd út laun um þessi mánaðamót vegna gjaldþrotsins fyrir helgi sæki um í ábyrgðarsjóð launa hjá stofnuninni.

„Þetta er sjóður sem verður virkur við gjaldþrot, sem tryggir uppsagnarfrest og þrjá mánuði aftur í tímann," segir Unnur sem hvetur til þess að fólk hafi samband við stéttarfélag sitt eða lögmann til að aðstoða við kröfur í sjóðinn.

Greiðslur úr sjóðnum eru skilyrtar því að kröfurnar hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur í gjaldþrotaskiptunum, en kröfuhafar hafa alla jafna um tvo mánuði til að lýsa kröfum.

Biðin líklega meiri en 5 mánuðir

Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra þrotabús Wow air, segir þó félagið muni nýta heimild til að framlengja frestinn í fjóra mánuði, svo það lýtur út fyrir að starfsmenn Wow fái ekki greitt úr sjóðnum fyrr en í fyrsta lagi eftir fimm mánuði.

Unnur telur þó líklegt að það taki lengri tíma, en hún segir að fólk geti framselt kröfurnar í sjóðinn þannig að það fái  atvinnuleysisbætur sem síðan dragist af heildarupphæðinni úr ábyrgðarsjóðnum.

Það eigi þó ekki við um námsmenn sem unnu hjá Wow air með náminu, því þó þeir eigi rétt á greiðslum úr Ábyrgðarsjóðnum, eigi þau ekki rétt á atvinnuleysisbótum til að brúa bilið, en geti heldur ekki fengið námslán ef vinnuhlutfallið hefur verið of hátt.