*

fimmtudagur, 9. apríl 2020
Innlent 8. ágúst 2015 18:42

Þúsundir fanga berjast við skógarelda í Kaliforníu

Kaliforníufylki sparar sér 80 milljónir dollara á ári með því að láta dæmda glæpamenn berjast við skógarelda.

Ritstjórn
Skógareldar eru algengir í Kaliforníu.
epa

Af þeim 10.000 manns sem berjast við skógarelda í Kaliforníu þessa dagana eru rúmlega 40 prósent þeirra dæmdir glæpamenn, en frá þessu greindi Capital Public Radio.

Glæpamennirnir eru hluti af átaki fangelsisyfirvalda í Kaliforníu sem í samstarfi við slökkviyfirvöld endurhæfa fanga með því að æfa þá í baráttunni gegn skógareldum.

Kaliforníufylki hefur treyst á fanga í baráttunni við skógarelda frá níunda áratugnum og nánast hver einasti fangi í átakinu er núna staddur í mið- eða norðaustur Kaliforníu að berjast við eldana. Skógareldarnir þekja nú hundruðir ferkílómetra í fimmtán sýslum.

Fangarnir fá einn dollara á tímann fyrir aðstoð þeirra í neyðartilfellum. Þeir eru einnig notaðir í öðrum hamförum á borð við flóð eða jarðskjálfta. Vinna þeirra sparar skattgreiðendum um 80 milljónir dollara á ári að sögn fylkisins, en fangarnir í átakinu eru um 4.000 talsins.

 

Fangarnir fá 64 klukkustunda þjálfun áður en þeir hefja störf. Þeir vinna fimm daga í viku en eru á bakvakt allan sólarhringinn.