Þúsundir farþega eru strandarglópar eftir að flugyfirvöld kyrrsettu flugvélar Turkmenistan Airlines af öryggisástæðum. BBC greinir frá þessu.

Bresk flugmálayfirvöld greindu frá því að nokkur flug félagsins frá Heathrow flugvellinum í London og flugvellinum í Birmingham hafi verið felld niður sökum fyrrgreindra ástæðna.

Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) ákvað að afturkalla flugleyfi flugfélagsins innan ESB-svæðisins þar sem að flugfélagið þótti ekki standast alþjóðlega flugöryggisstaðla.

Farþegum sem áttu bókað flug með Turkmenistan Airlines var bent á það af breskum flugyfirvöldum að þeir gætu þurft að gera nýjar ráðstafanir upp á eigin spýtur til að komast á leiðarenda. Var þeim einnig bent á að hafa samband við flugfélagið til þess að falast eftir endurgreiðslu á flugmiðunum.