Tugir þúsunda heimsækja gestastofur og aflstöðvar tengdar orkuvinnslu Landsvirkjunar og Orkuveitunar á hverju ári. Landsvirkjun starfrækir sjö staði sem eru opnir fyrir gestum og gangandi en Orkusýn sér um sýningu í húsnæði Orkuveitunnar við Hellisheiðarvirkjun. 19.400 manns heimsóttu gestastofur Landsvirkjunar sumarið 2011 og var það aukning frá fyrra ári þrátt fyrir að opnum gestastofum hafi verið fækkað. Í sumar er svo gert ráð fyrir að tekið verði á móti gestum í þremur aflstöðvum Landsvirkjunar víðsvegar um landið líkt og síðasta sumar.

Síðastliðið sumar var ný gagnvirk orkusýning opnuð í Búrfellsstöð sem miðar að því að varpa ljósi á endurnýjanlega orkugjafa, tækifæri og takmarkanir þeim tengdum sem og sögu þeirra á Íslandi. Gestafjöldi tvöfaldaðist eftir að sýningin var opnuð. Nú í sumar verður svo gestastofa Kröflustöðvar opnuð í nýrri og endurbættri útgáfu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.