Þúsundir manna sóttu Hveragerði heim í gær þegar Ísdagurinn mikli fór þar fram. Um þrjú tonn af ís munu hafa runnið niður kverkar gesta Ísdagsins. Á meðal óvenjulegra bragðtegunda sem boðið var upp á í ár voru tannkremsís, Doritos-ís, hákarlaís og hundasúruís.

Ísdagurinn var hluti af bæjarhátíð Hveragerðis sem kallast Blómstrandi dagar og stóð yfir í fjóra daga. Á næsta ári fagnar Kjörís 45 ára afmæli en fyrirtækið hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi og hefur ávallt verið staðsett í Hveragerði. Í dag starfa rúmlega 50 manns hjá fyrirtækinu.