Vinnumálastofnun áætlar að um þrjú þúsund manns komi til með að flytja til Íslands á vegum starfsmannaleiga á þessu ári. Yrði það tvöföldun milli ára ef þær tölur standast. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins .

Enn fremur gerir stofnunin ráð fyrir því að þúsund útsendir starfsmenn komi hingað til lands í ár sem yrði svipaður fjöldi og í fyrra. Til að setja þetta í samhengi er þetta líkt og allir íbúar Vestmannaeyja myndu flytja til landsins.

Sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, áætlar að meðal þessara 4.000 einstaklinga verði nær eingöngu erlendir ríkisborgarar. Einungis fáeinir Íslendingar eru með í þessum hópi. Erlent vinnuafl sem kemur hingað á eigin vegum er utan þessa hópa og komi því til viðbótar. Þetta er langstærsti hópurinn að sögn sérfræðingsins og því sé erfitt að áætla fjöldann í ár.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru hér um 26.500 erlendir ríkisborgarar í byrjun síðasta árs en tæplega 30.300 í byrjun þessa árs. Það er fjölgun um 3.800 manns milli ára.