Aðalfundur Berkshire Hathaway, fjárfestingafélags Warren Buffett, er haldinn um helgina á heimaslóðum Buffett,  í Omaha í Nebraska fylki. Aðalfundur félagsins þykir með þeim líflegri og sækja tugþúsundir hluthafa aðalfundinn ár hvert. Wall Street Journal fjallar um fundinn og segir góðan anda ríkja meðal hluthafa, enda hafi hlutabréf þeirra hækkað um þriðjung frá síðasta fundi.

Buffett og Charlie Munger, varastjórnarformaður félagsins, svara spurningum hluthafa í dag og greinir WSJ frá því að spurningar sem hafi borist séu taldar í þúsundum. Blaðamenn WSJ blogga beint frá fundinum og má fylgjast með umræðum hér .

Berkshire Hathaway tilkynnti í gær að hagnaður á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hafi aukist um 51%, einkum vegna aukins hagnaðar af tryggingastarfsemi og lestarsamgöngum.