Jón Þorgeir Kristjánsson, nýráðinn framkvæmdastjóri ÍMARK - samtaka markaðsfólks á Íslandi, segir auglýsingamarkaðinn á samfélagsmiðlum minna dálítið á fótbolta í yngri deildum.

„Fyrirlesari í Hamborg lýsti þessu vel þegar hann sagði að markaðsmenn væru svolítið eins og þegar þú horfir á ungmennafótbolta. Boltinn flýgur út úr þvögunni og þvagan þýtur á eftir boltanum. Svo kemur boltinn allt í einu aftur út úr þvögunni og aftur fer þvagan í þá átt. Ætli samfélagsmiðlar séu ekki þar sem boltinn er núna. Fólk er líka að átta sig á því hvernig á að nota þetta. Samfélagsmiðlar eru líka í sífelldri þróun.“

Jón Þorgeir segir íslenskan auglýsingamarkað að mörgu leyti ólíkan því sem þekkist erlendis. „Breytingarnar gerast hægar á Íslandi. Við vorum hægari að fara inn á internetið og prentið lifir betur hér en úti. Smæð markaðarins gerir líka það að verkum að það skiptir kannski ekki jafnmiklu máli hvar þú setur hverja krónu. Það skiptir auðvitað miklu máli hérna en miðlarnir hér heima eru ekki alveg jafnmarkhópamiðaðir. Ef þú ætlar að ná til ákveðins hóps úti þá þarftu að greina kúnnahópinn miklu meira niður til að ná til hans. Síðan velurðu miðla út frá því á meðan við erum kannski það lítil að við erum ekki með marga miðla sem sinna bara einverjum ákveðnum hópum heldur eru þeir miklu almennari. Markhópagreining er eitthvað sem við getum gert miklu betur og þar liggja mikil tækifæri,“ segir Jón Þorgeir.

„Þetta er kannski helsti munurinn. En þetta eru um margt sömu pælingar. Mér fannst mjög áhugavert að erlendis eru miklu stærri félög en ÍMARK sem eru að takast á við sömu áskoranir og við. Það breytist ekki, hvort sem þú ert með 400 eða 4.000 félaga.“

Hvað verður um raunverulegar skoðanir?

Áhrifavaldar eru að sögn Jóns Þorgeirs eitthvað sem fólk á eftir að ná almennilega utan um. „Við hjá ÍMARK höfum ekki haft neinn fund um áhrifavalda en það er eitthvað sem þarf að skoða rækilega. Fyrir mér er það að fyrirtæki borgi einum og einum fyrir að hafa jákvæða skoðun á sinni vöru dálítið vafasöm leið að feta. Margir hafa tekið svo djúpt í árinni að segja að þetta sé framtíð markaðssetningar. Ég er ekki viss um að ég vilji sjá þá framtíð ef allir vinir manns fá borgað fyrir að segja manni hvað maður á að gera. Þá veit maður ekkert hverju maður á að trúa og hver er að fá borgað fyrir hvað,“ segir Jón Þorgeir.

„Ég tel hættulegt að fara þá leið af því hvað verður þá um raunverulegar skoðanir ef fólk fær borgað fyrir að hafa skoðanir? Missum við þá ekki tenginguna við hvað er raunverulegt og alvöru? Ég hef mikið velt þessu fyrir mér.“ Hann segir marga hér á landi velta áhrifavöldum fyrir sér en að margir vilji halda að sér höndum á meðan aðrir nýta sér þennan kost í meiri mæli. „Við þekkjum líka þegar fyrirtæki hafa fengið manneskju til að vera andlit auglýsingaherferðar. Síðan gerir manneskjan kannski eitthvað af sér – þá tengirðu vörumerkið við einhverja manneskju. Það getur að mínu mati oft verið mjög hættulegt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .