*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 25. nóvember 2015 12:52

Þverpólitísk samstaða um lækkun tryggingagjalds

SA benda á að árlegt gjald sé um 20 til 25 milljörðum hærra en það eigi að vera þar sem atvinnuleysi hefur minnkað hratt.

Ritstjórn
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra sagði bæði rétt og nauðsynlegt að ná tryggingargjaldinu niður.
Haraldur Guðjónsson

Þverpólitísk samstaða er um lækkun tryggingagjalds. Þetta kom fram á opnum umræðufundi um fjárlög ríkisins sem haldinn var af Samtökum atvinnulífsins.

Fram kemur að tryggingagjaldið kemur harðast niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem flest ný störf verða til. Fyrirtæki með tíu starfsmenn í vinnu greiðir í raun laun þess ellefta. Stór hluti tryggingagjaldsins rennur til ríkissjóðs til að fjármagna atvinnuleysi sem er nánast horfið.

Brynhildur S. Björnsdóttir stjórnarformaður Bjartrar framtíðar sagði að tryggingagjaldið væri slæmt en það væri ósýnilegur kostnaður á launaseðlinum og skoraði á fjármálaráðherra að beita sér fyrir lækkun þess. Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði það skoðun Vinstri grænna að það mætti skoða lækkun tryggingagjaldsins enda væri atvinnuleysi nánast ekki neitt sem gjaldinu væri ætlað að fjármagna.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði bæði rétt og nauðsynlegt að ná tryggingargjaldinu niður. Undir lok umræðnanna sagði Katrín Júlíusdóttir að sér heyrðist vera komin pólitísk samstaða um að lækka tryggingagjaldið og stjórnmálamennirnir hljóti að geta fundið einhverjar leiðir til þess.

Stikkorð: atvinnulífsins Samtök