Atvinnuleysi hefur farið minnkandi í sumar og í ágústmánuði var það 6,7% samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar um ástandið á vinnumarkaði í ágúst. Svo lágt hefur atvinnuleysi ekki verið í ágúst síðan árið 2008. Í ágúst í fyrra var það 7,3% og árið 2009 var atvinnuleysið 7,7% í ágústmánuði. Athygli vekur að atvinnuleysi jókst á milli ágúst og júlí sem er óvenjulegt ef litið er til áðurnefndra ára en venjulega minnkar atvinnuleysi allt sumarið og nær svo lágmarki í september.

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir það færast í aukana að fyrirtæki innan samtakanna séu í vandræðum með að laða til sín það starfsfólk sem þau vantar og tekur hann fram að það gildi ekki eingöngu um sérhæft starfsfólk heldur líka störf ófaglærðra. "Það er í raun ákveðin þversögn að ástandið skuli vera svona á sama tíma og atvinnuleysi er mjög hátt í sögulegu samhengi. Ég tel að einkum tvær ástæður skýri þessa óheillaþróun. Í fyrsta lagi eru skattar á laun orðnir mjög háir miðað við það sem áður var, sérstaklega á jaðrinum. Loks er ekki hægt að líta framhjá því að allar bætur hafa hækkað mun meira en sem nemur hækkun launa síðustu ár sem þýðir að hvatinn til vinnu er orðinn minni en áður. Því verður seint haldið fram að fólk sé ofhaldið af bótum eða lægstu launum. Hins vegar má fullyrða að núverandi kerfi og þróun bóta sé vel til þess fallin að letja fólk til vinnu og þar með halda aftur af vexti íslensks atvinnulífs," segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaði morgundagsins er:

  • Gagnaniðurhal margfaldast
  • Mikil óvissa um álverð
  • Greiðslufallsdraugurinn enn við dyr Grikklands
  • Úttekt á fjárlögum 2012
  • Fréttaskýring: Óverðtryggðu íbúðalánin
  • Viðtal við Finn Oddsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs
  • Stórveldin hirða sjónvarpstekjurnar í spænska boltanum
  • Allt um iPhone 4S