Mér líkar vel við áskoranir og að taka við fjármálastjórastöðunni hjá Valitor er svo sannarlega áskorun sem ég er til í. Hjá Valitor er starfsfólkið allt í sama liði, við vinnum hratt og það er mikil dýnamík í okkur -  akkúrat eins og ég vil hafa það," segir Harpa Vífilsdóttir, nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs Valitor.

„Ég er heppin að þekkja vel til innviða þegar ég tek við starfinu. Vöruframboð Valitor er flókið og síbreytilegt á þeirri tækniöld sem við lifum á svo það er gott að eiga þennan bakgrunn í pokahorninu þegar maður tekur við starfi eins og þessu," bætir hún við.

Áður en Harpa hóf störf hjá Valitor starfaði hún lengst af sem endurskoðandi hjá KPMG.

„Það má segja að ég sé „alin upp" hjá KPMG og þar þróaðist ég í þá ákveðnu og sjálfsöruggu Hörpu sem ég er í dag. Eftir að hafa eignast þrjú börn á þremur árum tók ég ákvörðun um að ég þyrfti að söðla um og prófa þessa hefðbundnu 8-4 vinnu."

Í kjölfarið sótti Harpa um tvö störf, annað hjá Valitor og hitt hjá Fjárvakri.

„Ég sagði mig úr ferlinu hjá Valitor þegar ég fékk Fjárvakursstarfið. Ég segi stundum að allt sé skrifað í skýin, því 9 mánuðum seinna fæ ég símtal þar sem mér er boðin staða hjá Valitor og má í raun segja að ég sé enn að bíða eftir þessari 8-4 vinnu," segir hún og hlær.

Harpa er gift bakarameistaranum Árna Þorvarðarsyni og eiga þau saman þrjú börn á aldrinum 6-9 ára.

„Ég segi oft að á mínu heimili ríki ítalska stemningin. Ömmurnar eru reglulegir gestir á heimilinu og hlaupa vinir krakkanna inn og út. Það er því alltaf líf og fjör í húsinu. Við erum þessi týpíska úthverfa fjölskylda í Garðabænum. Yngstu börnin eru að byrja í grunnskóla í haust svo það verða viðbrigði að vera ekki með neitt barn á leikskóla.

Ég nýt þess að hoppa upp í flugvél og kanna nýja heima," segir Harpa um áhugamálin. „Þá er ég í frábærum saumaklúbbum og einn klúbbanna, sem samanstendur af gömlum vinkonum úr KPMG, fer til London á hverju ári. Reglulega fæ ég svo einhverja nýja hreyfingu á heilann og „mastera" hana. Ég er t.d. nýkomin úr tveggja ára götuhjólavitleysu þar sem ég lét m.a. plata mig að taka þátt í WOW cyclothon með Valitor. Okkur hjónum þykir svo mjög gaman að halda matarboð. Ég finn alltaf tilefni til að halda boð og því fleiri sem mæta í partýið, því betra. Ég á svolítið erfitt með mig í þessu ástandi sem ríkir í dag vegna COVID-19, enda algjör félagsvera sem finnst gaman að tala."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .