Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra undirritaði í dag reglugerð sem afléttir öllum efnahagslegum og fjárhagslegum þvingunaraðgerðum gegn Íran sem tengjast kjarnorkumálum.

Þetta er gert í kjölfar þess að Alþjóðakjarnorkumálastofnunin staðfesti að Íran uppfylli nú nauðsynleg skilyrði um skuldbindingar á sviði kjarnorkumála, en ríkið hafði samþykkt skilmála framkvæmdaráætlunar þann 14. júlí 2015.

Þvingunaraðgerðirnar sem eru felldar niður varða fjármagnshreyfingar, banka- og tryggingamál, olíu, gas og efni unnin úr jarðolíu, skipaflutninga, skipasmíðar og flutninga, gull, aðra eðalmálma, peningaseðla og mynt, málma, hugbúnað og frystingu fjármuna og ferðabann, sem er aflétt á vissa einstaklinga og lögaðila.

„Það er ástæða til að fagna þessum áfanga, sem er sönnun þess að viðskiptaþvinganir geta haft raunveruleg áhrif á alþjóðavettvangi. Alþjóðlegur samtakamáttur og samningagerð eru mun farsælli leið til lausnar á deilumálum en vopnaskak,“ segir Gunnar Bragi.