Tilraunir Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, til að þvo af sér þjóðernisstimpilinn eru ekki líklegar til að bera árangur. Inga er ekki ein í vaskhúsinu þessa dagana, því Viðreisn rær lífróður enda blasir fylgishrun við flokknum. Pawel Bartoszek lagði í gær fram frumvarp um lögleiðingu kannabisefna. Þingmaðurinn segir frumvarpið hafa verið í vinnslu frá því í desember, en frá því leggur samt sætan kosningaþef. Með frumvarpinu, sem hann leggur fram ásamt Pírötum, reynir þingmað­urinn að þvo Sjálfstæðisstimpilinn af Viðreisn, sem í hugum margra er illsundurgreinanlegt rótarskot úr Valhöll.

Um árangurinn er ekki gott að segja, en frumvarpið er líklegt til að enda í skjalasafni andvana þingfrumvarpa, rétt eins og þær þúsund tilraunir hans gömlu flokksbræðra í Valhöll til að koma víni í verslanir. Slíkt yrði stuttbuxnadeildinni þó líklega mikill bjarnargreiði, því hvernig ætti flokkurinn þá að flagga frjálslyndi sínu?