Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður vinstri grænna og fyrrverandi fjármálaráðherra, segir þýðingarlaust að rífast yfir nýrri skýrslu matsfyrirtækisins S&P. Dapurlegt sé að horfa á óuppfyllt og óútfærð loforð ríkisstjórnarinnar skaða lánshæfi ríkissjóðs. Þetta kemur fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

Matsfyrirtækið S&P segir að hugmyndir nýju ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingu geti verið skaðlegar opinberum fjármálum. Umfang, kostnaður og fjármögnun sé óljós en líkur séu á að aðgerðinni fylgi áhætta. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins kemur fram að ekki hafi náðst í forsætisráðherra í morgun en að fram komi á bloggsíðu aðstoðarmanns hans að stjórnvöld hafi þegar sent matsfyrirtækinu athugasemdir og mótmæli vegna ákvörðunarinnar.

Steingrímur J. Sigfússon segir í samtali við rúv að þeim hefði betur mátt sleppa. „Aðalvonbrigðin eru auðvitað að hér snýr tiltekin jákvæð þróun undangenginna missera og ára við. Undan farin tvö ár hefur lánshæfi landsins jafnt og þétt styrkst og batnað, horfur orðið stöðugri og umsagnir orðið jákvæðari, en nú leggur þetta af stað í öfuga átt og við fáum gagnrýna umsögn út af áformum stjórnvalda og þeirra fyrstu skrefum í ríkisfjármálum og efnahagsmálum,“ segir hann. Mestu máli skipti í samskiptum við matsfyrirtæki að mata þau á traustum og réttum upplýsingum að fyrra bragði. „Þannig að þeir byggi sínar niðurstöður á bestu fáanlegu upplýsingum. En það þýðir ekkert að reyna að plata þá eða hræða þá til að breyta sinni afstöðu með einhverjum mótmælum, það er mín reynsla. Ég held frekar að menn ættu nú að velta því fyrir sér hvort ekki sé eitthvað til í þessu hjá þeim, að fyrstu skref ríkisstjórnarinnar og þessi óheyrilegu óútfærðu kosningaloforð séu bara orðin áhættuþáttur fyrir Ísland. Þannig að það er ekki lítið undir og þess vegna þýðir ekki að gera bara lítið úr þessu,“ segir Steingrímur í samtali við rúv.