Þau Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, og börnin hans, Konráð Jónsson, Hlynur Jónsson og Hulda Björg Jónsdóttir, eru þessa dagana að innrétta nýtt húsnæði í Síðumúla 27 undir starfsemi nýrrar lögmannstofu sinnar.

„Við kölluðum þetta áður JSG Ráðgjöf, sem byrjaði þannig að þegar ég hætti sem dómari fór ég að taka að mér verkefni, og síðan kom sonur minn Konráð til mín og síðar Hlynur. Þá vorum við með Veritas lögmönnum í Borgartúni en núna þegar Hulda Björg dóttir mín hefur komið til liðs við okkur ákváðum við að taka á leigu sérstakt húsnæði og breyta nafninu,“ segir Jón Steinar um tilkomu lögmannsstofunnar JSG lögmenn.

Þrjú af átta börnum lögfræðingar

„Það voru systkinin sem ákváðu að kalla þetta JSG lögmenn, mögulega því sá gamli er kannski þekktastur af okkur, ætli það megi ekki segja að ég sé einhvers konar viðskiptavaki. Strákarnir hafa báðir réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómi, en þeir eru ekki enn komnir með réttindi fyrir Landsrétti og þá ekki Hæstarétti.

Ég hef auðvitað réttindi á öllum dómsstigum þannig að við ráðum við allar tegundir af málum. Hulda Björg er ekki komin með málflutningsréttindi en í félagi við bræður sína og mig þá er alveg nóg að gera fyrir hana í ýmsum lögfræðiverkefnum sem við erum að reka fyrir dómstólum.“

Jón Steinar segir það ekkert mikið að eiga þrjú börn sem séu lögfræðingar. „Ég á nú svo mörg börn, eða átta, að það er nú ekki mikið þó að þrjú þeirra séu lögfræðingar. Við hjónin eigum fimm börn saman og það eru þrjú þeirra sem eru með mér í þessu,“ segir Jón Steinar sem segir stofuna ekki sérhæfa sig í neinni einni tegund af málum.

Fitnað eins og púkinn á fjósbitanum

„Sumir eru kannski fyrst og fremst að sinna skaðabótarétti, fasteignarétti eða einhverju slíku, en við höfum lýst okkur fús til að taka að okkur allar tegundir af málum og höfum fengið mjög fjölbreytt verkefni. Það hefur verið furðulega líflegt að gera, þó að núna séu kannski þeir tímar að það dragi frekar úr lögmannsstörfum frekar en hitt.

Segja má að lögmenn hafi fitnað eins og púkinn á fjósbitanum eftir hrunið í þeim verkefnum sem þá komu upp sem núna eru að baki. Margir þeirra hafa því verið að draga saman seglin núna á sama tíma og við erum að byrja, en við höfum ekki verið að gera út á neina slíka hluti.“

Jón Steinar bendir á að þótt það sé nýstárlegt að fyrrverandi dómari fari á ný út í lögmannsstörf, séu fordæmi fyrir því. „Það hefur reyndar einn gert það á undan mér, það var Magnús heitinn Thoroddsen,“ segir Jón Steinar sem telur ekki að það muni koma niður á lögmannsstörfum sínum þó að hann sé þekktur fyrir gagnrýni sína á Hæstarétt.

„Það held ég ekki, enda þýðir ekkert að lifa eins og einhver þræll, menn verða bara að lifa eftir sýnum sannfæringum og viðhorfum. Aðalatriðið er að menn séu tilbúnir að rökstyðja skoðanir sínar eins og ég hef gert þegar ég hef gagnrýnt réttinn með rökstuddum hætti.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .