*

föstudagur, 17. september 2021
Innlent 16. maí 2013 11:21

Þykir dómurinn harkalegur

Skattsvikadómi yfir Ragnari Þórissyni verða áfrýjað til Hæstaréttar, að sögn lögmanns hans.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Haraldur Guðjónsson

„Dómurinn er ofsalega harkalegur. Þessu verður áfrýjað,“ segir Jón Elvar Guðmundsson, lögmaður Ragnars Þórissonar, sjóðsstjóra og stofnanda Boreas Capital. Hann var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdur til greiðslu 24 milljóna og í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna skattsvika. Honum var gefið að sök að hafa vantalið tekur sínar um 120 milljónir króna af samningum með hlutabréf og komið sér undan því að greiða 12 milljónir króna í skatt. 

Jón Elvar segir í samtali við vb.is að fyrst dómari komist að því að Ragnar sé sekur þá hafi dómsniðurstaðan verið fyrirsjáanleg enda kveði lögin á um mögulegan fangelsisdóm og greiðslu tvöfaldrar skattfjárhæðinni í lágmarkssekt. Hann telur hins vegar niðurstöðuna ekki rétta.

„Efnislega gerist það að Ragnar á í viðskiptum við bankann og nettóniðurstaðan af viðskiptunum tap upp á um 270 þúsund krónur. Í því ljósi er dómurinn ofsalega harkalegur. En lögfræðilega þá leikur verulegur vafi á að refsiheimild sé fyrir hendi í samræmi við ákæru. Það leikur líka verulegur vafi á því að Ragnar megi ekki draga tap frá hagnaði af samningum. Í ljósi þess er skrýtið að hann sé dæmdur sekur,“ segir Jón Elvar og bætir við að mistökin liggi í raun hjá MP banka, sem hafi ekki veitt Ragnari þær upplýsingar sem hann hafi óskað eftir í tengslum við samningana. Jón Elvar bendir sömuleiðis á að Ragnar hafi greitt það margfalt til baka sem hann á að hafa stungið undan, milljónir tólf auk álags. Með sektargreiðslunni nú geri þetta hátt í 40 milljónir króna sem hann greiði af því samtals 270 þúsund króna tapi sem varð af samningunum.

Hann segir að koma verði í ljóst hvað Hæstiréttur segir og býst hann við annarri niðurstöðu þar en í héraði.