„Auknar afskriftir bankanna eru áberandi en það virðist fyrst og fremst vera vegna lána til fyrirtækja,“ segir Snorri Jakobsson, forstöðumaður greiningardeildar Capacent, um uppgjör viðskiptabankanna þriggja á fyrsta ársfjórðungi.

„Það er dýrara að lána einstaklingum en áhættan er minni en af lánum til fyrirtækja. Það er spurning hvort menn séu stundum að teygja sig of langt í ótryggum fyrirtækjalánum. Það á annað við um trygg fyrirtækjalán þar sem menn eru með góð veð að baki,“ segir Snorri.

Útlánatöp Arion banka á undanförnum árum hafa vakið mesta athygli. Bankinn var lánveitandi Wow air, Primera Air og United Silicon sem öll hafa verið lýst gjaldþrota undanfarið eitt og hálft ár. Þá á Arion banki Valitor sem var nýlega dæmt til að greiða Datacell og Sunshine Press 1,2 milljarða króna eftir að hafa lokað á greiðslur til Wikileaks árið 2011. Snorra finnst markmið Arion banka um 10% arðsemi nokkuð bratt. Snorri bendir á að jafnvel þó horft sé framhjá þeim áföllum sem bankinn hafi orðið fyrir að undanförnu þá sé hann nokkuð langt frá arðsemismarkmiði sínu. Ekki muni duga til að lækka eigið fé bankans líkt og stefnt hafi verið að. Sennilega sé 7,5% til 9% arðsemi raunhæfara markmið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .